Rakel Sigurgeirsdóttir birti eftirfarandi á bloggi sínu 2. júlí sl:

Í tilefni þess að það hefur verið gert opinbert að Lilja Mósesdóttir er á meðal umsækjanda um stöðu seðlabanakstjóra langar mig til að fagna umsókn hennar. Ástæðurnar eru margar en þó einkum sú að engum treysti ég betur til að fara með þetta mikilvæga embætti á þessum tímum sem íslenskt efnahagslíf sætir síendurteknum árásum.

Lilja hefur sýnt það ítrekað að hún býr ekki aðeins yfir víðtækri þekkingu á flóknum efnahagsmálum heldur hefur hún hvað eftir annað lagt fram tillögur um það hvernig megi bregðast við þeim vanda sem íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir þannig að hagur almennings og innlendra atvinnufyrirtækja verði borgið. Tillögur sínar hefur hún kynnt með skýrum dæmum um það hvers vegna þær eru nauðsynlegar, hvernig þær skuli framkvæmdar og hvaða afleiðingar þær muni hafa á alla helstu þætti hagkerfisins.

Einn skeleggasti nýliðinn inni á þingi veturinn 2010

Af því að Lilja er óvenju heiðarleg þá hefur það alltaf legið ljóst fyrir að tillögur hennar gera ráð fyrir að þeir sem skapa raunveruleg verðmæti með vinnuframlagi sínu fái meira í sinn hlut. Auk þess hefur hún lagt ríka áherslu á að velferðarkerfið verði varið þannig að kjör þeirra verst settu verði varin ásamt því sem mennta- og heilbrigðiskerfinu verði hlíft.

Hins vegar þurfa þeir sem veðjuðu á móti krónunni fyrir hrun að gefa umtalsvert eftir af kröfum sínum. Þeir sem hafa nýtt sér ójafnvægið í efnahagsstjórn undangegnina ára og tekið til sín stærra hlutfall af verðmætasköpuninni í landinu en þeim bar verða líka að gefa eftir til að jafnvægi náist í hagkerfinu hérlendis.

Lilja byrjaði að vinna að hugmyndum sínum um lausn á skulda- og efnahagsvanda þjóðarinnar þegar haustið 2008. Hún kom þrisvar fram á vegum Opinna borgarafunda og Radda fólksins í kjölfar efnahagshrunsins þar sem hún varaði við leiðum þáverandi ríkisstjórnar en lagði fram hugmyndir að öðrum sem hún taldi heillavænlegri til uppbyggingar íslensku efnahagslífi.

Í máli sínu lét hún koma fram að þær leiðir sem þáverandi ríkisstjórn hyggðist fara hefðu verið reyndar annars staðar þar sem þær hefðu ekki skilað tilætluðum árangri. Málflutningur hennar hlaut ekki aðeins góðar undirtektir á fundunum sem um ræðir heldur skiluðu henni fremst á framboðslista Vinstri grænna í suðvesturkjördæmi og inn á þing vorið 2009.

Lilja vakti aftur athygli þegar hún varaði við afleiðingum þess að Svavarssamningurinn svokallaði yrði samþykktur. Frá og með því að hún varaði þannig við fyrsta þætti Icesave fór að gæta vissrar togstreitu á milli fylgjenda síðustu ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem hafði laðað Lilju til fylgis við Vinstri græna fyrir alþingiskosningarnar 2009. Mörgum virtist það nefnilega skipta meiru að starfsheiður Svavars Gestssonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, stæði óflekkaður en að þjóðinni yrði forðað frá þeirri óréttlátu skuldabyrði sem Lilja benti á að lægi í Icesave-samningnum.

Þegar fram í sótti urðu viðbörgðin við tillögum Lilju svo og því sem hún hafði við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar að athuga mun fjandsamlegri. Endirinn varð sá að hún og Atli Gíslason sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna. Eins og einhverja rekur eflaust minni til höfðu allnokkrir hvatt Lilju til að segja sig úr flokknum og stofna sinn eigin flokk en þeir voru svo færri sem voru tilbúnir til að styðja hana til þess þegar hún lét verða af því að kalla eftir stuðningi til slíks í nóvember 2011.

Vinsælustu þingmenn Vinstri grænna meðal kjósenda fyrir framan alþingishúsið 1. október 2011

Ég var ein þeirra sem fylgdist alltaf með verkum Lilju Mósesdóttur. Ég studdi hana og dáðist að henni úr fjarlægð. Það sem mér fannst sérstaklega aðdáunarvert í hennar fari og vinnubrögðum var sú virðing sem hún sýndi þeim, sem kunnu að hlýða á hana, með því að setja hugmyndir sínar og skoðanir alltaf fram á eins skýran og einfaldan hátt og flókin efnahagsmál heils hagkerfis bjóða upp á.

Í kringum þau tímamót sem stofnun Samstöðu voru gerð opinber var mér boðið að taka þátt í uppbyggingu flokksins. Ég þekktist það boð eftir nokkra umhugsun. Mestu réðu efnahagsstefna flokksins sem að sjálfsögðu var komin frá Lilju. Ég ætla ekki að rekja sögu Samstöðu nákvæmlega hér en þeir sem fylgdust með því sem var að gerast í pólitíkinni á þeim tíma muna sjálfsagt þann stranga mótbyr sem flokkurinn hafði í fangið frá vorinu 2012.

Þar sem ég var ein þeirra sem stóðu framarlega í því að freista þess að vekja athygli á málstað og stefnu Samstöðu á sama tíma og við vörðumst stöðugri áreitni þeirra, sem vildu helst jarðsyngja flokkinn, þá kynntist ég þolgæði og framgöngu Lilju nokkuð náið. Allan þann tíma, frá því að það sem ég tel eðlilegast að kalla beinar árásir hófust og þar til landsfundur Samstöðu tók þá ákvörðun að draga framboðið til baka, undraðist ég af hveru mikilli hófstillingu Lilja tók öllu því sem að höndum bar.

Reyndar dáðist ég af því hvað hún tók því öllu af mikilli skynsemi og eiginlega vandaðri fagmennsku. Hún lét aldrei slá sig út af laginu en velti hverju því sem kom upp á fyrir sér af vandlegri gaumgæfni og yfirvegun. Leitaði ráða hjá þeim sem hún treysti og tók ákvarðanir í samráði við aðra sem unnu að sömu einurð og hún að því að Samstaða yrði fyrst og fremst trúverðugt stjórnmálaafl sem yrði þess megnugt að fylgja efnahags- og velferðarstefnu flokksins eftir.

Þegar það var fullreynt að af því gæti ekki orðið tilkynnti hún að hún treysti sér ekki til að fara fram í alþingiskosningunum sem þá voru framundan. Það var svo lagt fyrir félaga flokksins hvert framhaldið ætti að verða á landsfundi sem hafði verið boðaður einhverjum mánuðum áður.

Frá því skömmu eftir síðustu alþingiskosningar hefur Lilja unnið að þjóðhagfræðirannsóknum í Noregi við góðan orðstí samstarfsfélaga sinna. Þar er menntun hennar, sérþekking og starfsferill talin mikilvæg viðbót við starfsemi stofnuninar sem sóttist einmitt eftir starfskröftum hennar fyrir þær sakir.

Að loknum fyrirlestri sem var haldinn í Grasrótarmiðstöð Aþenuborgar í boði stofnunar Nico Poulantzas vorið 2013

Reyndar hefur orðspor hennar greinilega spurst út víðar en til Noregs. Eftir að hún hvarf út af þingi síðastliðið vor hefur verið sóst eftir henni til að fjalla um stöðu efnahagsmála á Íslandi eftir hrun á fundum og ráðstefnum víða um Evrópu. Meðal annars á vettvangi háskóla og stjórnmála í álfunni.

Þó það megi segja að fyrrum flokkssystkini Lilju og ýmsir fylgjendur síðustu ríkisstjórnar hafi hrakið Lilju burt af þingi þá er ljóst af ýmsum athugasemdum, sem fylgjendur hennar á Fésbókinni hafa látið falla síðan, að þeir eru ýmsir sem sjá sárt á bak henni af vettvangi efnahagsumræðu á Íslandi. Það er því ljóst að þeir verða þó nokkrir sem fagna því með mér að sjá það nú að Lilja er tilbúin til að snúa til baka og taka ekki aðeins virkan þátt í umræðunni um slík mál heldur standa í eldlínunni við mótun hennar til varanlegrar frambúðar.

Miðað við menntun, starfsreynslu og sérfræðiþekkingu Lilju Mósesdóttur get ég ekki ímyndað mér annað en það verði ómögulegt fyrir þá, sem hafa með ráðninguna í seðlabankastjórastöðuna að gera, að horfa framhjá umsókn hennar. Ég el þá björtu von í brjósti að það sé útilokað og hún hljóti þar af leiðandi stöðuna. Ég er sannfærð um að það muni ekki aðeins birta til í efnahagsmálum landsins, ef hún yrði ráðinn næsti seðlabankastjóri Íslands, heldur hugum margra landsmanna líka!

Slóð á bloggið.