Lilja Mósesdóttir var á Grikklandi dagana 15. – 22. apríl sl. í boði Syriza og Stofnunar Nico Poulantzas. Í ferð sinni flutti hún fyrirlestur undir yfirskriftinni: Endurreisn íslenska hagkerfisins – Ólokin saga á fundi, sem var haldinn á vegum Syriza og Stofnun Nico Poulantzas, í Grasarótarmiðstöð Aþenuborgar.

Þess má geta að Syriza nýtir sér Grasrótarmiðstöðina töluverð til að virkja almenning í pólitískri baráttu sem endurspeglast í slagorði þeirra: „Við erum ekkert án ykkar.“  Syriza er nú í stjórnarandstöðu en vann stórsigur í kosningum í júní 2012 þegar fylgi flokksins fór í 27%. Fyrir efnahagskreppuna hafði Syriza fengið um  5% fylgi í kosningum.

Fundur í Grasrótarmiðstöð Aþenuborgar

Áheyrendur á fyrirlestri Lilju voru mjög áhugasamir um efni fyrirlestrarins og spurðu margra spurninga að honum loknum. Meðal þeirra voru stjórnmálamenn, aktívistar og fjölmiðlamenn sem nýttu tækifærið og fengu gestafyrirlesarann frá Íslandi í viðtal í lok fundarins um efni hans.

Gestirnir á fundinum voru fyrst og fremst af vinstri væng grískra stjórnmála og lék þeim forvitni á að vita um reynsluna af vinstri stjórn á Íslandi á krepputímum. Það kom fundargestum á óvart að heyra að ríkisstjórnar-flokkarnir á Íslandi væru nú að mælast með 30-50% fylgistap í skoðanakönnunum. Flokkum sem tókst að tryggja hagvöxt og draga úr atvinnuleysi,  tekjuójöfnuði og fátækt.

Hins vegar skildu margir fylgistapið þegar Icesave-samningar ríkisstjórnarinnar voru útskýrðir og hvernig ítrekað var reynt að keyra samninga í gegnum þingið til að þóknast Bretum, Hollendingum, AGS og Norðurlöndunum án meirihlutastuðnings þingmanna og þjóðarinnar. Mörgum þótti til eftirbreytni að semja við kröfuhafa um endurgreiðslur á láni í samræmi við hagvöxt en hagkerfið í Grikklandi hefur ekki vaxið frá árinu 2007.

Það þóttu jafnframt mistök af hálfu vinstristjórnarinnar á Íslandi að innleiða fyrst og fremst skuldaaðgerðir sem nýttust mjög skuldsettum heimilum hálaunafólks (sértæk skuldaaðlögun og 110% leiðin) og láglaunafólki í greiðsluerfiðleikum (greiðsluaðlögun). Fundargestir voru sammála um að vinstri flokkar geti ekki aðeins lagt áherslu á skuldaaðgerðir til að koma til móts við þá sem verst eru settir eftir efnahagshrun ætli þeir að halda meirihlutastuðningi kjósenda.

Annað sem kom fundarmönnum  verulega á óvart var mikill fjöldi nýrra framboða í ljósi þess hve mikil samstaða náðist meðal almennings í Icesave-deilunni. Offramboðið var í þeirra augum vísbending um mikla sundrungu og óánægju. Þetta voru nýjar fréttir frá landinu sem margir litlu upp til vegna baráttu þjóðarinnar við kröfuhafa og fyrir nýrri stjórnarskrá. Sundrungin í stjórnmálum á Íslandi þótti víti til varnaðar fyrir Syriza sem allar líkur eru á að verði í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Miklar umræður spunnust um nauðsyn þess að stjórnarflokkar á Grikklandi sýni hörku og staðfestu í samningaviðræðum við Troika (AGS, ESB og Evrópska seðlabankann) og kröfuhafa til að missa ekki traust kjósenda. Grikkir hafa fram til þessa látið undan kröfum Troika um viðvarandi niðurskurð ríkisútgjalda, launalækkanir, lækkun lífeyris og  afnám ýmissa réttinda launafólks á vinnumarkaði án þess að dregið hafi úr samdrættinum í hagkerfinu.

Afleiðingarnar eru 27% atvinnuleysi og stöðugt stækkandi hópur fólks sem býr við fátækt og á ekki fyrir mat á hverjum degi.  Fram kom að margir þeirra sem enn hafa tekjur deili þeim með vinum og ættingjum til að koma í veg fyrir að þeir svelti.

Fundur með efnahagsnefnd Syriza

Á meðan á dvöl Lilju Mósesdóttur stóð átti hún líka fund með efnahagsnefnd Syriza í gríska þinginu. Tilefnið var að  ræða og svara spurningum um endurreisn íslenska bankakerfisins. Áhugi Grikkja á nýja bankakerfinu á Íslandi mótaðist af  mikilli þörf gríska bankakerfisins fyrir endurfjármögnum til að koma útlánastarfseminni af stað að nýju.

Fundinn sátu auk þingmanna Syriza, starfsmenn flokksins og prófessorar í hagfræði sem starfa náið með flokknum. Viðstöddum  fannst merkilegt að heyra um eignarhald vogunar-/hrægammasjóða á tveimur af þremur viðskiptabönkum hér á landi og óttuðust sambærilega þróun á Grikklandi þegar búið væri að endurfjármagna gríska bankakerfið.

Mikill áhugi var á reynslu okkar af því að hafa einn banka í ríkiseigu og hvort leyfa ætti viðskiptabönkum í einkaeigu að yfirtaka sparisjóði eins og gerst hafði í báðum löndum frá 2008. Lilja lýsti þeirri skoðun sinni að markmiðið með eignarhaldi ríkisins á banka væri aðalatriði en ekki eignarhaldið sjálft.

Banki í ríkisseigu eins og nýi Landsbankinn sem hefði það hlutverk að hámarka endurheimtur kröfuhafa gamla Landsbankans (sbr. erlenda skuldabréfið) væri í engu frábrugðinn banka í eigu vogunar-/hrægammasjóða. Bankakerfi með veikburða sparisjóðakerfi ætti erfitt með að koma til móts við þarfir einstaklinga og lítilla fyrirtækja á svæðisbundnum mörkuðum.

Grískir fjölmiðlar áhugasamir

Heimsókn íslenska þingmannsins, Lilju Mósesdóttur, sem er sérfræðingur í efnahagsáföllum vakti nokkra athygli meðal grískra fjölmiðla. Þeir birtu við hana viðtöl bæði fyrir heimsókn hennar og í framhaldi hennar. Þar á meðal er vandað útvarpsviðtal þar sem launsum hennar í efnahagsmálum var sýndur mikill áhugi.

Fundurinn á vegum Syriza og Stofnunar Nico Poulantzas, í Grasarótarmiðstöð Aþenuborgar, var sendur út í beinni á Netinu og verið er að skrá fyrirlesturinn niður. Hugmyndir Lilju  hafa því fengið góða kynningu á Grikklandi.

Myndir úr ferðinni: