DV lagði 24 spurningar fyrir þær þingkonur sem tóku þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér til áframhaldandandi þingsetu. Svörin voru birt í síðasta sunnudagsblaði DV. Hér eru spurningarnar ásamt svörum Lilju Mósesdóttur sem kjósendur Vinstri grænna tryggðu þingsæti vorið 2009 en hefur verið utan flokka frá vorinu 2011.

Af hverju ákvaðstu að gefa ekki kost á þér til áframhaldandi þingsetu?

Lilja á þingi

Það var aldrei ætlun mín að gerast stjórnmálamaður. Miklar undirtektir með málflutningi mínum um fjármálakreppuna og stuðningur við hugmyndir mínar að lausnum hennar varð hins vegar til þess að ég bauð fram krafta mína í síðustu alþingskosningum.

Í byrjun síðasta árs ákvað ég að gefa þjóðinni tækifæri til að styðja mig til setu á Alþingi í komandi kosningum. Sá stuðningur sem ég taldi mig þurfa til að geta haft áhrif á þingi kom ekki og því ákvað ég að sækjast ekki eftir endurkjöri.

Telur þú að það skipti máli að konur séu í áhrifastöðum og af hverju?

Ísland sker sig úr hvað varðar atvinnuþátttöku kvenna og hlutfall þeirra meðal kjörinna fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum eftir hrun. Mikilvægt er að halda þessari sérstöðu  en tiltölulega jöfn þátttaka kvenna og karla er forsenda þess að samfélagið fái notið ávinningsins af fjölbreyttum skoðunum og vinnulagi. Einsleitar skoðanir um ágæti óhefts markaðsbúskapar og vinnubrögð sem einkenndust af mikilli áhættuhegðun áttu sinn þátt í hruninu.

Hefur þú orðið vör við einhvern mun á því hvernig kynin nálgast völd og valdastöður?

Karlar eru gjarnan óhræddari en konur að nota valdastöður til að tryggja og jafnvel auka völd sín enn frekar.  Völd kvenna eru oftar dregin í efa af öðrum í nefndum og jafnvel komið í veg fyrir að konurnar geti beitt þeim með sama hætti og karlar t.d. með því að hafna tillögum kvenna um breytingar á fyrirkomulagi funda og fundarefni. Dæmin sýna þó að kyn viðkomandi er ekki endilega trygging fyrir bættum og lýðræðislegri vinnubrögðum.

Er Alþingi karllægur vinnustaður og hefur þú merkt einhverjar breytingar þar á þeim tíma sem þú hefur setið á þingi?

Já, Alþingi er karllægur vinnustaður þar sem formenn flokka ráða mestu um störf þingsins, þ.e. hvaða mál komast í gegn fyrir jóla- og sumarfrí. Þegar slíkar samningaviðræður áttu sér stað fóru margir karlar á flug í allskonar plotti. Fæstar konur fundu sig í plottinu og áttu oft erfitt með að skilja hvað væri í gangi dögum saman á þingi. Þeir þingmenn (konur og karlar) sem stóðu fyrir utan samningaviðræðurnar gramdist hvernig farið var með fullkláruð frumvörp sem fórnað var í valdaspili formanna stærstu þingflokkanna. Engin breyting varð á þessu á meðan ég sat á þingi.

Eiga konur erfiðara uppdráttar á þingi en karlmenn?

Já, á meðan völd snúast um plott í bakherbergjum og samtryggingarkerfi karla en ekki þekkingu og hæfni. Fæstar konur kunna öll klækjabrögðin sem tíðkast í pólitík og valdaleysi þeirra í pólitík þýðir að þær geta ekki treyst á jafn víðtækt stuðningsnet og karlar þegar á þarf að halda. Konum hefur verið innrætt í meira mæli en körlum að þær þurfi að mennta sig til að ná árangri. Þær missa því margar fótanna þegar inn á þing er komið og í ljós kemur að hollusta við flokksforystuna ræður mestu um hvaða trúnaðarstörf þingmenn fá.

Standa konur jafnfætis körlum þegar það kemur að ákvarðanatöku á þingi eða öðrum störfum þingmanna? Hvar eru ákvarðanir teknar? Er munur á því hvernig kynin vinna saman og nálgast hvort annað?

Mín reynsla er að karlar voru oftar búnir að „heyra hljóðið“ í öðrum þingmönnum þvert á flokka varðandi afstöðu til ákveðinna mála í umræðu eða vinnslu mála í þinginu. Mér fannst konurnar halda sig meira við samskipti við þingmenn í eigin flokki.

Er komið öðruvísi fram við þingkonur en þingmenn?

Ég upplifði mun meiri dómhörku gagnvart konum bæði í fjölmiðlum og meðal kjósenda. Þetta varð til þess að margar konurnar á þingi lögðu meiri áherslu á að kynna sér ítarlega mál í stað þess að eyða tíma í að kanna eða móta afstöðu annarra þingmanna til mála. Mér fannst kjósendur oft sýna konum sem ekki voru með eitthvað á hreinu meiri ósvífni en körlum á fundum.

Hefur þú orðið vör við að almenn umræða um þingkonur sé að einhverju leyti frábrugðin umræðunni um þingmenn? Hvernig þá? Hefur þú persónulega reynslu af því?

Mér hefur oft fundist þekkingu og málflutningi þingkvenna sýnd minni virðing en þingkarla. Menntun mín og hagfræðiþekking var mjög oft dregin í efa í umræðum um flókin efnahagsmál af fólki sem hafði afar litlar forsendur til að gera það.

Þekktir bloggarar og fjölmiðlar fjalla auk þess mun meira um ummæli og tillögur karla í pólitík en kvenna. Þöggunin takmarkar mjög möguleika kvenna til að eiga samtal við kjósendur með sama hætti og karlar í pólitík. Ég fór framhjá þessari hindrun með því að tjá mig á Facebook um hugmyndir mínar og tillögur ásamt því að leiðrétta rangfærslur og útúrsnúninga.

Nú í aðdraganda kosninga er nánast eingöngu fjallað um og vitnað í karla í almennri umræðu um kosningarnar. Það eru vonbrigði hvað þessi kynjahalli vekur litla athygli.

Lilja í ræðustól Alþingis

Voru gerðar aðrar væntingar til þín sem konu en þeirra karla sem þú hefur unnið með?

Mér fannst fleiri vænta þess að karlar sem voru nýir á þingi tækju að sér forystuhlutverk í stjórnmálum en konur. Ég heyrði t.d. oftar að einhver þingmaður væri efnilegur en þingkona. Þetta er hluti af þeirri karllægu menningu sem ríkir á Alþingi.

Finnst þér þú hafa verið metin að verðleikum innan þíns flokks?

Nei. Forysta flokksins hafði frá upphafi engan áhuga á að nota þekkingu og hæfni mína. Fólk er enn metið út frá fjölskyldutengslum og hollustu við málflutning leiðtoganna. Ég kom ekki úr réttri fjölskyldu og hafði skoðanir á Icesave, samstarfinu við AGS, niðurskurðinum í heildbrigðisgeiranum og skuldavanda heimilanna sem samrýmdust ekki málflutningi flokksforystunnar.

Margoft var vitnað til þess að enginn annar (hagfræðingur) væri sammála mér og reynt að gera mig tortryggilega með dylgjum um að ég væri í eigin hagsmunabaráttu í málum sem ég beiti mér mest í (skuldamálin og Icesave) og jafnvel í máli sem ég beitti mér ekki neitt í (breytingar á kvótakerfinu).

Finnst þér þú hafa verið metin að verðleikum á Alþingi?

Já, að einhverju leyti. Á meðan ég var í stjórnarmeirihlutanum hafði ég það hlutverk að koma stjórnarfrumvörpum í gegnum þingið. Ég hafði ekkert um efni frumvarpanna að segja en gat haft frumkvæði að því að breyta einstökum  ákvæðum. Í því sambandi get ég nefnt frumvarp um breytingar á lögum um einkahlutafélag og hlutafélög en ég lagði mikið á mig sem formaður viðskiptanefndar til að tryggja að inn kæmi ákvæði um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn.

Hlutverk mitt á Alþingi sem þingmaður utan þingflokka takmarkaðist fyrst og fremst við að koma fram með gagnrýni og tillögur um úrbætur á málum í vinnslu eða til umræðu í þinginu. Síðan réði hagsmunapólitík því hvort stóru þingflokkarnir tóku eitthvað upp af því sem ég varaði við eða lagði til.

Hvað stendur helst upp úr eftir tímann á Alþingi?

Samskipti og vinskapur við þingmenn, hópa og einstaklinga sem berjast með hugsjónina að vopni fyrir breytingum á samfélaginu. Þetta voru einstaklingar sem ég hefði aldrei kynnst og starfað með nema í gegnum störf mín sem þingmaður.

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú settist á þing?

Hvað hæfni þingmanna skiptir litlu máli og hvað valdakerfið er fast í sessi innan veggja þingsins. Framkvæmdavaldið ræður öllu í krafti meirihlutans en þingmenn meirihlutans eru að mestu leyti valdalaust tæki þess. Stjórnarmeirihlutinn hafði aðeins samráð við stærstu þingflokkana, Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Aðrir vissu varla hvað var í gangi.

 Hvað er það jákvæðasta við vinnustaðinn?

Upplýsingaskyldan sem framkvæmdavaldið hefur gagnvart þinginu. Ég fékk upplýsingar sem veittu mér einstakan skilning á stöðunni í efnahagsmálum sem ég reyndi síðan að einfalda og miðla í gegnum blogg, facebook og viðtöl. Starfsfólk Alþingis var afskaplega hjálplegt og reyndist mér faglega vel og var gott að starfa með því. Ég er líka þakklát einstökum embættismönnum sem létu mig fá upplýsingar sem ég þurfti sem þingmaður.

En það neikvæðasta?

Klækjastjórnmál og að vera skilgreind út frá fjölskyldutengslum og hollustu við flokksforystuna í VG. Mér sárnaði mest þegar ég fékk áskorun frá hópi fólks úr menningar- og menntaelítunni sem skoraði á mig að segja mig frá þingmennsku vegna afstöðu minnar til Icesave I. Þetta fólk átti að vita betur. Afstaða mín til Icesave I og II var líka oft útskýrð af forystu VG með tilvísun til þess að foreldrar mínir og nokkrir ættingjar hefðu kosið Sjálfstæðisflokkinni í áratugi.

Ég gleymi heldur aldrei þegar forysta VG setti mig af sem formann Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins þremur dögum áður en ég átti að fara til Strassborgar og flytja ræðu sem fulltrúi flokkahópsins míns um skýrslu OECD um efnahagsmál.

Telur þú að það þurfi að eiga sér einhverjar breytingar á starfsháttum þingsins og þá hvaða?

Já, hæfni og vinna þingmanna verður að hafa meira vægi inni á þingi. Til þess að það geti orðið þarf að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Stjórnarandstaðan á að hafa með höndum formennsku í nefndum og samningar um hvaða mál fara í gegn fyrir þinglok á að vera alfarið í höndum einstakra nefnda.

Ef hæfni ræður trúnaðarstörfum verður ekki lengur hægt að refsa „óþægum“ þingmönnum með því að taka af þeim trúnaðarstörf og verkefni eins og nú er óspart gert.

Þau Atli, Guðfríður Lilja og Lilja Mósesdóttir á meðal mótmælenda 1. október 2011

Hverju ertu stoltust af?

Ég er stoltust af baráttu okkar “villkattanna” sumarið 2009 gegn Icesave I sem varð til þess að stjórnarliðar gátu ekki keyrt í gegnum þingið á nokkrum dögum samning sem kostað hefði skattgreiðendur a.mk. 250 milljarða.

Markmið mitt með því að fara inn á þing 2009 var að tryggja að almenningur væri alltaf upplýstur um stöðuna og hvaða þýðingu einstakar aðgerðir og athafnaleysi hefði . Ég tel að mér hafi tekist það verkefni vel. Í því sambandi vil ég minna á snjóhengjuvandann og tillögur mínar um skatt á aflandskrónur, upptöku Nýkrónu í gegnum mismunandi skiptigengi til að leiðrétta ójafnvægið í hagkerfinu,  hvalrekaskatt á gengishagnað útflutningsfyrirtækja til að fjármagna hallann á ríkissjóði og lyklafrumvarpið.

Af þeim málum sem þingið samþykkti og ég fékk að koma nálægt á þessu kjörtímabili þá er ég stoltust af kynjakvótanum og ákvæðinu um að skuldir þeirra sem verða gjaldþrota fyrnist tveimur árum eftir gjaldþrot. Ákvæðið var nauðsynlegt í ljósi forsendubrests sem hrunið olli en það rennur út í lok árs 2014. Ég er líka stolt af hinum fjölmörgu lagabreytingum sem við gerðum í júní 2010 á lögum um fjármálafyrirtæki og hafa reynst vel.

Sérðu eftir einhverju?

Nei

Hvað var erfiðasta verkefnið sem þú stóðst frammi fyrir á þínum ferli?

Að berjast gegn Icesave en það var líka ánægulegt eftir á í ljósi niðurstöðu málsins. Úrsögnin mín úr VG tók mjög á.

Hvað þarf maður að hafa til brunns að bera til að ná langt í pólitík á íslandi?

Vera svolítill skemmtikraftur í sér og kunna að byggja upp og nýta sér hóp stuðningsfólks sem oftar en ekki tilheyra ákveðnum hagsmunaöflum.

Hvaða skoðun hefur þú á hugmyndinni um að þjóðin þurfi sterkan leiðtoga?

Hugmyndin er hættuleg lýðræðinu og mun kalla yfir okkur annað hrun. Einsleitni í skoðunum þýðir að öll eggin eru lögð í sömu körfuna eins og gerðist fyrir hrun.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir?

Ég hugsaði oft til þingkvenna Kvennalistans á meðan ég var á þingi en ég starfaði með þeim sem almennur flokksfélagi. Minn helsti ráðgjafi á þingi var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem hafði mun meiri reynslu af stjórnmálum en ég og ráð hennar reyndust mér vel. Ég leitað líka oft til Atla Gíslasonar um álit á lögfræðilegum álitaefnum og breytingar á kvótakerfinu og stjórnarskránni.

 Mælir þú með þessu starfi?

Ég vara fólk við þessu starfi því það krefst mikilla fórna. Þú mátt búast við að missa mannorðið ef þú syndir gegn straumum. Þingmenn eiga auk þess aldrei frí þar sem fólk krefst þess að þingmenn veiti því persónulega athygli á öllum tímum sólarhrings.

Hvað hefur þú lært af þessu?

Þingmennska er valdalítið embætti og ekki leiðin til að ná fram breytingum á samfélaginu nema þú tilheyrir stærsta stjórnmálaflokknum á þingi og þá gerist allt mjög hægt – jafnvel eftir heilt efnahagshrun.

Lilja Mósesdóttir var á Grikklandi í síðustu viku í boði Syriza og Stofnunar Nico Poulantzas

Hvað er framundan hjá þér?

Ferð til Grikklands í boði SYRIZA og Nico Poulantzas Institute.