Á Alþingi  eru nú tvö lagafrumvörp til umfjöllunar sem bera merki þess að stjórnarmeirihlutinn hafi hlustað á varnaðarorð greinarhöfunda síðastliðið haust um þær hættur sem þjóðinni stafar af ógagnsæu eignarhaldi vogunarsjóða/hrægammasjóða á stórum hluta íslensks atvinnulífs í gegnum þrotabú hinna föllnu banka (sjá t.d. hér) .

Falið eignarhald

Í gildandi lögum eru engar kröfur til fyrirtækja um að upplýsa hverjir eru raunverulegir eigendur þeirra heldur nægir að skrá lögaðila sem eiganda. Þannig er ekkert vitað hverjir eru raunverulegir eigendur margra stærstu fyrirtækja landins – en raunverulegur eigandi telst vera einstaklingur ekki eignarhaldsfélag eða annað fyrirtækjaform. Þannig er raunverulegt eignarhald fyrirtækja, bæði fjármálafyrirtækja  eins og t.d.: Straums – fjárfestingabanka, Aríonbanka, Íslandsbanka og annarra mikilvægra fyrirtækja, hér má nefna fjölmiðlafyrirtækja eins og 365, leyndarmál.

Nýlega hafa komið fram vísbendingar um víðtækt eignarhald vogunarsjóða/hrægammasjóða í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Slíkir sjóðir sérhæfa sig í kaupum á kröfum á gjaldþrota fyrirtæki eða ríkissjóði í greiðsluerfiðleikum. Kröfurnar eru keyptar á hrakvirði en sjóðirnir beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja fullar endurheimtur m.a. með því að hreinsa út úr fyrirtækjum sem þeir eignast eða með málaferlum til að fá eignarétt sinn á verðmæti kröfunnar viðurkennda. Óþarft er að minna á að nær undantekningalaust er lögheimili hrægammasjóða  í ríkjum þar sem fullkomin leynd er um eignarhald og greiðslur skatta og arðs.

Gagnsætt eignarhald

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur nú til að fyrirtæki verði skylduð til að birta upplýsingar um hlutfallslega eign allra eigenda annaðhvort í ársreikningi (10 stærstu) eða sem fylgiskrá með ársreikningi (sjá hér). Þessi tillaga efnahags- og viðskiptanefndar er nauðsynlegt skref í rétta átt en dugar skammt. Upplýsingar um eigendur gefa enga vísbendingu um hvaða einstaklingar eru hinir raunverulegir eigendur fyrirtækis. Markaðirnir og almenningur eru engu nær þótt upplýst sé að eigandi eignarhlutar sé eignarhaldsfélag sem síðan getur verið í eigu annars félags og síðan enn annars á bak við það.

Þannig  eru byggðir upp svo flóknir vefir eignarhalds að hvorki markaðsaðilar, almenningur né yfirvöld geta áttað sig á hverjir eru hinir raunverulegir eigendur og hagsmunaaðilar; þ.e. hvort um er að ræða hrægammasjóði, kennitöluflakkara, sakamenn eða aðila sem eiga hluti í ólíkum fyrirtækjum sem á yfirborðinu eiga í samkeppni. Mörg dæmi eru um að markaðir voru blekktir á árunum fyrir hrun þegar viðskipti með hlutabréf áttu sér oft stað á milli skyldra aðila eða að sami eigandi seldi og keypti eigin hlutabréf til þess að hækka markaðsverð og sýna umsvif.

Skattasniðganga er í mörgum tilvikum byggð á duldu eignarhaldi. Skattayfirvöld geta oft ekki rakið viðskipti með hlutabréf og hvort hagnaður af slíkum viðskiptum hafi verið gefinn upp til skatts. Hið sama á við um arðgreiðslur sem renna til eignarhaldsfélaga í skattaskjólum. Í þeim tilvikum er engin leið til þess að tryggja að skattur verði greiddur af arðinum. Sem dæmi má nefna að í Bretlandi greiddu 230 af 700 stærstu fyrirtækjum landsins enga skatta – og gengdu flókin eignatengsl og skattaskjól lykilhlutverki í „löglegri“skattasniðgögnu þessara aðila.

Óhæfir eigendur útilokaðir

Nýlegt frumvarp um fjármálafyrirtæki bregst við þessari gagnrýni okkar og ætlun er að skylda fyrirtækin til að upplýsa á vefsíðu sinni um hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fyrirtækinu á hverjum tíma (sjá hér).  Jafnframt skal koma fram hverjir séu raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila. FME hefur heimild til að beita fjármálafyrirtæki stjórnvaldssekt ef þau birta ekki þessar upplýsingar.

Því miður girðir frumvarpið ekki fyrir eignarhald vogunarsjóða/hrægammasjóða á fjármálafyrirtækjum. Fjármálaeftirlitið (FME) hefur fram til þessa samþykkt óbeint eignarhald slíkra sjóða á t.d. Íslandsbanka og Aríonbanka í gegnum eignarhaldsfélögin  ISB holding og Kaupskil.  Þetta fyrirkomulag er á mörkum þess að vera löglegt og ógnar fjármálastöðugleikanum.

Löngu er orðið tímabært að þrengja skilyrðin um hæfi eigenda fjármálafyrirtækja til að koma í veg fyrir að áhættufjárfestar með, skammtímahagsmuni sem ógna hagsmunum þjóðarinnar, verði eigendur banka hér á landi. Jafnframt þarf að veita FME heimild til að endurmeta hæfi eigenda fjármálafyrirtækja telji eftirlitið ástæðu til þess. Í dag er hæfi eigenda fjármálafyrirtækja aðeins metið þegar viðkomandi eignaraðili fer yfir 10% eignarhlut í fjármálafyrirtækinu.

Gagnsæi forsenda frjálsra viðskipta

Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt mun Ísland setja fordæmi  hvað varðar gagnsætt eignarhald fjármálafyrirtækja. Ávinningur almennings af gagnsæju eignarhaldi er minni áhætta af rekstri fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð og minni möguleikar til skattaundanskota eða peningaþvættis. Takmörkuð ábyrgð þýðir að kröfur sem ekki fást greiddar við gjaldþrot fyrirtækis falla á fjármálafyrirtæki, viðskiptavini og skattgreiðendur.

Gagnsætt eignarhald er forsenda samkeppni á mörkuðum og trausts almennings á viðskiptalífinu.  Það er sjálfsögð krafa í lýðræðissamfélagi að við vitum hvern við eigum í samskiptum við  – hvort sem það á við um kaup á vörum eða þjónustu eða þegar um (inn)lánaviðskipti er að ræða.

Jón Þórisson og Lilja Mósesdóttir, félagar í SAMSTÖÐU.

Tengt efni:

Útvarpsviðtal við höfunda í Bítinu á Bylgjunni 22. janúar 2013
Grein af bloggvettvangi Lilju Mósesdóttur: Falið eignarhald er á okkar kostnað
Frétt með umfjöllun og þingræðu Lilju Mósesdóttur um þetta efni: Opnar á skjól fyrir hrægamma