Í gærmorgun birti visir.is frétt af miklum hagnaði bandaríska vogunar- eða hrægammasjóðsins Third Point af sölu grískra ríkisskuldabréfa (sjá hér) Í fréttinni segir beinlínis að sjóðurinn hafi „hagnast vel á kreppunni á evrusvæðinu“. Bandaríski hrægammasjóðurinn græddi 60 milljarða á að kaupa skuldabréf á hrakvirði og selja síðan gríska ríkinu þau í síðustu viku á margfalt hærra verði.

Lilja Mósesdóttir hefur á þessu hausti lagt sig fram um að kveikja skilning íslensku þjóðarinnar á þeirri ógn sem Íslandi stafar af hrægammasjóðum. Hún vakti athygli á umræddri frétt af visir.is á Fésbókarsíðu sinni í morgun þar sem hún undirstrikar það hvaðan 60 milljarðarnir eru teknir:

„… og hvaðan koma 60 milljarðar?? Jú, úr vasa fátæks fólks sem á ekki fyrir mat því búið er lækka laun um allt að 23-32% og bætur um annað eins. Er þetta ásættanlegt? NEI, en það mun viðgangast á meðan almenningur rís ekki upp og krefst þess að hrægammasjóðir fái aðeins rétt rúmlega það sem þeir greiddu fyrir skuldabréfin sín – hvort sem það eru ríkisskuldabréf eða kröfur í þrotabú banka!!“

Laun og bætur í Grikklandi hafa m.ö.o. verið skorin niður um 23% - 32%  til að gera gríska ríkinu kleift að borga skuldir sínar með því m.a. að kaupa upp skuldabréf á hálfvirði sem gengið hafa kaupum og sölum á enn lægra verði.

Í gær vakti Lilja athygli á því í grein á bloggvettvangi sínum að: „tillaga um að veita fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að selja eignarhluti ríkisins í Landsbankanum, Arion banka, Íslandsbanka og sparisjóðunum er komin á dagskrá þingsins“ og að stjórnarflokkarnir áforma að samþykkja söluheimildina nú fyrir jól . Hún segir að hún hafi lagt til að tillögunni yrði vísað frá m.a. fyrir það að líklegustu kaupendurnir eru hrægammasjóðir „sem nú eru lokaðir inni í hagkerfinu með mikla fjármuni“.  Ef hrægammasjóðir eignast slensku bankana er ljóst að það mun ógna  fjármálastöðugleikanum í landinu (sjá hér).

Í samhengi við framangreint er ástæða til að vekja sérstaka athygli á ræðu sem Lilja flutti á þingi miðvikudaginn 21. nóvember síðastliðinn. Þar sagði hún frá umræðu sem fram hefur farið í efnahags- og viðskiptanefnd um nauðsyn rekjanlegs eignahalds og rakti samfélagslegan ávinning þess að skylda fyrirtæki til að upplýsa um alla eigendur. Tæpri viku síðar gerði Lilja nákvæmari grein fyrir þessu efni í grein á bloggvettvangi sínum. Greinina nefnir hún: Falið eignarhald er á okkar kostnað en inngangur hennar er þessi:

Margt bendir til þess að hrægammasjóðir eigi nú þegar stóran hluta fjármálakerfisins á Íslandi í gegnum þrotabú gömlu bankanna og atvinnulífsins með kaupum á kröfum, hlutabréfum og skuldabréfum. Raunverulegir eigendur hrægammasjóða reyna að fela slóð sína með því að stofna eignarhaldsfélag sem á í eignarhaldsfélagi með aðsetur í skattaskjóli.

Falið eignarhald fyrirtækja verður að afnema með því að skylda fyrirtæki til að gefa upp í t.d. ársreikningi sínum hverjir raunverulegur eigendur eru, þ.e. einstaklingar. (sjá hér)

Í framhaldinu telur hún upp sjö rök „fyrir gagnsæju eignarhaldi fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð“ en þau eru:

1. Minni samfélagsáhætta.
2. Styrkari samkeppni
3. Hægt að kortleggja krosseignatengsl
4. Erfiðara að stunda skattsvik
5. Dregur úr peningaþvætti og ávinningi af skattaskjólum
6. Eykur traust almennings á atvinnulífinu
7. Eykur skilvirkni markaða
(sjá nánar um hvern þessara liða (hér)

Ræða Lilju Mósesdóttur um nauðsyn rekjanlegs eignhalds frá 21. nóvember 2012:

Virðulegi forseti. Í efnahags- og viðskiptanefnd ræðum við hvernig við getum tryggt í lögum um ársreikninga að fyrirtæki gefi upp nöfn á öllum eigendum þannig að eignarhaldið verði rekjanlegt til einstaklinga en ekki til annarra lögaðila. Í dag vitum við t.d. að ALMC á Straum fjárfestingarbanka en við vitum ekki hver á ALMC. Skortur á upplýsingum er ein meginástæða þess að teknar eru rangar ákvarðanir í samfélaginu.

Almenn skylda fyrirtækja til að upplýsa um eignarhald er ekki íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Upplýsingar um eigendur og eignarhluti þurfa nefnilega að liggja fyrir áður en aðalfundur er haldinn. Samfélagslegur ávinningur af því að skylda fyrirtæki til að upplýsa um alla eigendur er margþættur.

Í fyrsta lagi kemur gegnsætt eignarhald fyrirtækja í veg fyrir að fjárfestar geti ástundað skattundanskot.

Í öðru lagi þýðir gegnsætt eignarhald það að auðveldara verði fyrir fjármálastofnanir að fá yfirsýn yfir eignir og skuldbindingar viðskiptavina sinna, sem dregur úr áhættu í lánveitingum.

Í þriðja lagi á almenningur rétt á að vita hvaða einstaklingar standa að baki félagi með takmarkaða ábyrgð þar sem eigendur þeirra bera sjálfir ekki ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins.

Í fjórða lagi má spyrja sig hvort ekki sé jafnmikil ástæða til að upplýsa um eignarhald fyrirtækja og að upplýsa um hver á fasteign.

rakel@xc.is

Greinar um hrægammasjóði á bloggvettvangi Lilju Mósesdóttur:

Hrekjum hrægammasjóðina út úr hagkerfinu frá 8. nóvember 2012
Hrægammasjóðir vilja Ísland á hrakviðri frá 28. október 2012