Þó það hafi ekki farið hátt í hinni pólitísku umræðu þá eru þó nokkrar nýjungar í stefnuskrá SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar sem snúa að umgerð samfélagsins. Þessar nýjungar snúa að leiðréttingum á ýmsu því sem aflaga hefur farið í íslensku samfélagi og óánægja hefur ríkt um.

Ein þessara nýjunga lýtur að lýðræðisumbótum með stofnun svæðisþinga sem yrðu um leið þriðja stjórnsýslustigið. Með stofnun svæðisþinga yrði dregið úr miðstýringu en valddreifing efld. Þessi hugmynd er meðal grundvallarstefnumála SAMSTÖÐU og er sett fram undir  liðnum „svæðamál“ í grundvallarstefnuskrá flokksins:


SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar vill í auknum mæli færa starfsemi hins opinbera til sveitarfélaga og landshlutasamtaka og koma á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum til að efla valddreifingu og draga úr miðstýringu.

Þessum aðilum verði tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar vegna fjölgunar verkefna. Tekjur af auðlindum og svæðisbundinni starfsemi renni í meira mæli til samneyslu og uppbyggingar á viðkomandi svæði.

SAMSTAÐA vill útrýma samkeppnishamlandi kostnaði vegna fjarlægðar frá markaði með samgönguúrbótum og flutningsjöfnun. Mikilvægt er að stefnumörkun í samgöngumálum taki m.a. mið af umferðaröryggi og umhverfisáhrifum. SAMSTAÐA vill leggja áherslu á strandsiglingar sem valkost. (sjá grundvallarstefnuskrá flokksins hér)

Ályktun landsfundar SAMSTÖÐU um svæðisþing

Á landsfundi SAMSTÖÐU, sem haldinn var í Hafnarfirði helgina 6. og 7. október sl., var stefna flokksins til þessara lýðræðisumbóta áréttuð með sérstakri ályktun. Flutningsmaður hennar var Agnes Arnardóttir, annar fyrrum varamanna flokksins. Ályktunin var samþykkt samhljóða en hún hljóðar svo:

Stefna SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar hefur  frá upphafi verið að færa eigi fleiri verkefni og tekjur frá ríkinu til sveitarfélaga og landshlutasamtaka og koma eigi á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum til að efla valddreifingu og draga úr miðstýringu.

Landsfundur vill að skipuð verði nefnd á vegum Alþingis hið fyrsta sem kanni kosti og galla þess að koma á þriðja stjórnsýslustiginu eða svæðisþingum. Nefndinni verði falið að meta nauðsynlegar laga- og stjórnarskrárbreytingar ásamt því að koma með tillögur um tekjustofna og verkefni sem fallið geta undir svæðisþingin.

Dæmi um slík verkefni eru t.d. úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir og velferðarmál, s.s. ákvarðanataka um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið (málefni aldraða og fatlaðra). (sjá aðrar ályktanir af landsfundi SAMSTÖÐU hér)

Þingsályktunartillaga um þriðja stjórnsýslustigið með svæðisþingum

Lilja Mósesdóttir, þingmaður og einn stofandi SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, hefur verið ötul við að vekja athygli á og fylgja stefnumálum SAMSTÖÐU eftir inni á þingi. Fimmtudaginn 6. desember lagði hún fram tillögu til þingsályktunar um þriðja stjórnsýslustigið með svæðisþingum. Lilja er ein skrifuð fyrir tillögunni. Tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja á stofn nefnd sem kanni kosti og galla þess að koma á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum. Einn fulltrúi verði tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, annar af Lagastofnun Háskóla Íslands og sá þriðji sem jafnframt verði formaður nefndarinnar af innanríkisráðherra. Nefndin skili niðurstöðum eigi síðar en í árslok 2013.

Í greinargerð með tillögunni segir:

Sveitarfélögum á Íslandi eru falin ýmis verkefni. Sjálf hafa þau einnig tekið sig saman um ýmis verkefni, bæði stór og smá, þrátt fyrir að þriðja stjórnsýslustigið sé ekki skilgreint sérstaklega hérlendis. Um það hefur verið rætt að best færi á því að sveitarfélögin tækju yfir fleiri verkefni. Svæðisþing geti stutt við uppbyggingu innviða á landsbyggðinni: atvinnusköpun, þróunarstarf og nýsköpun.

Ekki sé skortur á duglegu, vel menntuðu fólki á landsbyggðinni sem gætu tekið jafn vel ef ekki betur á staðbundnum vandamálum og fundið þeim farsælli lausnir en ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Aukið sjálfstæði landshluta gæti jafnframt stuðlað að því að fundnar yrðu fjölbreyttari lausnir sem hentuðu betur á hverjum stað. Það yrði án efa einnig kappsmál hvers landshluta að nýta sem best það fjármagn sem þar yrði til ráðstöfunar.

Þó þarf að huga vel að því hvernig sveitarfélög taka við verkefnum ríkisins og vinna þarf áætlanir sem tryggja að þjónusta raskist ekki. Því er lagt til að stofnuð verði nefnd sem kanni kosti þess og galla að koma á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum.

Nefndinni verði falið að meta nauðsynlegar laga- og stjórnarskrárbreytingar ásamt því að koma með tillögur um tekjustofna og verkefni sem fallið geta undir svæðisþingin eins og úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir og velferðarmál, svo sem ákvarðanatöku um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið. Það síðastnefnda á sérstaklega við um málefni aldraðra og fatlaðra.

Einnig þyrfti nefndin að kanna fyrirkomulag í nágrannalöndunum og geri grein fyrir hvernig tekjum og verkefnum þeirra er háttað. (sjá hér)

Svæðisþing í sérstakri umræðu um byggðamál

Lilja Mósesdóttir vakti athygli á hugmyndinni um svæðisþing og þýðingu þeirra fyrir landsbyggðina fyrr í haust þar sem byggðamál voru til sértakrar umræðu á Alþingi. Umræðan fór fram 14. nóvember en Lilja Rafney Magnúsdóttir var upphafsmaður hennar. Þar lýsti hún yfir áhyggjum sínum vegna neikvæðar byggðaþróunar víða á landsbyggðinni.

Í máli sínu vísar Lilja Rafney til Skýrslu Byggðastofnunar um samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun en endar mál sitt á því að beina allnokkrum spurningum til stjórnvalda varðandi nánari greiningar, viðbrögð og úrbætur. (sjá hér)

Alls ellefu þingmenn tóku til máls undir þessari umræðu og er hún öll hin athyglisverðasta. Lilja Mósesdóttir var ein þeirra sem lagði til umræðunnar þar sem hún bendir á lausnir sem felast í því að „færa þjónustu tekjustofna og ákvarðanatöku út á land og snúa þannig við þróuninni sem hefur orðið á undanförnum árum og birtist í því að um 40% tekna ríkissjóðs er aflað á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið eyðir um 70%.“

Í framhaldinu bendir hún á stöðu heilbrigðisþjónustunar á landsbyggðinni þar sem þróunin hefur verið sú að loka sjúkrahúsunum og færa þjónustu landsbyggðarsjúkrahúsanna „undir Landspítalann í nafni niðurskurðar.“

Á sama tíma „hafa stórir málaflokkar eins og málefni aldraðra og fatlaðra verið færðir til sveitarfélaganna“. Reynslan hefur hins vegar sýnt að mörg sveitarfélög hafa ekki burði til að ráða við svo umfangsmikla málaflokka. Í sinni víkur Lilja Mósesdóttir að veiðigjaldinu og minnir á að það hafi „verið gagnrýnt fyrir að vera í raun sérstakur landsbyggðarskattur.“

Ræðu sinni lýkur hún svo á því að benda á leið til eflingar þjónustustiga og atvinnulífs á landsbyggðinni og aukins lýðræðis í þeim tilgangi að sporna við fólkssfækkun í dreifðari byggðum landsins:

Mikilvæg leið til að efla þjónustustigið, atvinnulífið og lýðræðið á landsbyggðinni er að koma á svokölluðum svæðisþingum. Verkefni svæðisþinganna yrði að sjá um úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir og velferðarmál, svo sem ákvarðanatöku um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið.

Ræða Lilju Mósesdóttur um svæðisþing (14. nóvember 2012) undir dagskrárliðnum sérstök umræða um byggðamál:

Virðulegi forseti. Eina leiðin til að sporna við fólksfækkun á landsbyggðinni er að færa þjónustu tekjustofna og ákvarðanatöku út á land og snúa þannig við þróuninni sem hefur orðið á undanförnum árum og birtist í því að um 40% tekna ríkissjóðs er aflað á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið eyðir um 70%.

Síðustu ár hefur þjónusta eins og heilbrigðisþjónusta í vaxandi mæli verið færð undir Landspítalann í nafni niðurskurðar. Þjónustuskerðingin í heilbrigðiskerfinu hefur þýtt að margt landsbyggðarfólk þarf að ferðast langar vegalengdir og dvelja langdvölum á höfuðborgarsvæðinu til þess að fá spítalaþjónustu sem er ekki ýkja flókin.

Ég nefni sem dæmi fæðingarþjónustu. Þeir sem búa við góða sjúkrahúsþjónustu úti á landi njóta hennar oft vegna nálægðar við stóriðju enda gerir stóriðja kröfu um að gott sjúkrahús sé í klukkustundarradíus frá verksmiðjunni.

Frú forseti. Á undanförnum árum hafa stórir málaflokkar eins og málefni aldraðra og fatlaðra verið færðir til sveitarfélaganna. Reynslan af þessari yfirfærslu er að stjórnsýslan verður eftir á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að mörg sveitarfélög ráða ekki við hana vegna smæðar sinnar. Veiðigjaldið hefur auk þess verið gagnrýnt fyrir að vera í raun sérstakur landsbyggðarskattur.

Mikilvæg leið til að efla þjónustustigið, atvinnulífið og lýðræðið á landsbyggðinni er að koma á svokölluðum svæðisþingum. Verkefni svæðisþinganna yrði að sjá um úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir og velferðarmál, svo sem ákvarðanatöku um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið. (sjá hér)

rakel@xc.is