Önnur umræða um fjárlög ársins 2013 hefur staðið yfir á Alþingi frá síðastliðnum fimmtudegi og hefur bæði orðið lengri og sögulegri en ráð var fyrir gert í upphafi. Lilja Mósesdóttir var meðal mælenda fyrsta dag umræðunnar. Hún hóf mál sitt á því að benda á að það væri „ekki auðvelt fyrir þingmenn sem ekki eiga sæti í fjárlaganefnd að taka þátt í umræðu um fjárlagafrumvarp stjórnarmeirihlutans.“ og tók það fram að frumvarpið væri „afar óaðgengilegt hvað það varðar að fá yfirsýn yfir útgjöld einstakra málaflokka og þá sérstaklega hvernig þau hafa þróast frá því að núverandi ríkisstjórn komst til valda“.

Lilja varaði við afleiðingum slíkra vinnubragða og tók fram að fjárlagafrumvarpið hefði „ekki verið til umsagnar í öðrum þingnefndum eins og venja hefur verið og því hafa aldrei jafnfáir þingmenn komið að umfjöllun um einstaka málaflokka þess. Frumvarpið er því að öllu leyti á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og ber vitni um bæði efnahags- og velferðarstefnu hans. Ekkert mat fylgir frumvarpinu á áhrifum útgjaldabreytinga á þá hópa sem munu til dæmis ekki njóta sömu þjónustu á þessu ári og fá skertar bætur á næsta ári.“

Í framhaldinu rakti hún afleiðingar þeirrar efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið eftir forskrift AGS án þess að tillit hafi verið tekið til annnarra sjónarmiða sem gera ráð fyrir að hagsmunir almennings verði teknir fram yfir hag fjármagnseigenda eins og væntingar kjósenda stóðu til. Í því sambandi sagði hún:

 Það var einmitt von mín og margra annarra sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni að hrunið mundi leiða til umskipta í íslenskri pólitík að hrunið mundi fleyta flokkum til valda sem notuðu fjárlög markvisst til að draga úr efnahagsáfallinu og til að forgangsraða í þágu velferðar í stað fjármagnseigenda.

Það varð hins vegar ekki raunin því að hin svokallaða norræna velferðarstjórn hafði ekki hugrekki til að snúa af braut kreppudýpkandi áætlunar AGS í ríkisfjármálum á árunum 2009 og 2010. Hver hefði trúað því að flokkur eins og Vinstri græn tæki U-beygju og gerðist einn besti stuðningsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Fjármálakreppan varð því ekki til þess að skerpa hinar pólitísku línur heldur afhjúpaði þvert móti að enginn pólitískur áherslumunur er á hinum svokölluðu vinstri og hægri flokkum.

Í ræðu sinni benti Lilja Mósesdóttir á það sem hún hefur bent á ítrekað áður að það eru tvær leiðir mögulegar. Önnur „felur í sér lánalengingu og takmarkanir á innflutningi. Ef sú leið verður fyrir valinu verður þjóðin hneppt í skuldafangelsi og margir munu forða sér úr landi.“ Hin leiðin er skiptigengisleiðin sem felur það m.a. í sér að snjóhengjan yrði skattlögð en ekki borguð upp með aukinni skattlangingu á almenning og niðurskurði á velferðarkerfinu.

Í lok ræðunnar gaf Lilja þeirri efnahagsstefnu sem hefur komið fram í fjárlögum undangengina ára þessa einkunn: „Fjárlög síðustu ára voru fjárlög hinna glötuðu tækifæra; fjárlög þar sem velferð var skorin niður fyrir vexti.“

Ræða Lilju Mósesdóttur við aðra umræðu um fjárlög 2013 frá fimmtudagskvöldinu 29. nóvember 2012

Virðulegi forseti. Það er ekki auðvelt fyrir þingmenn sem ekki eiga sæti í fjárlaganefnd að taka þátt í umræðu um fjárlagafrumvarp stjórnarmeirihlutans. Frumvarpið er afar óaðgengilegt hvað það varðar að fá yfirsýn yfir útgjöld einstakra málaflokka og þá sérstaklega hvernig þau hafa þróast frá því að núverandi ríkisstjórn komst til valda. Í raun má segja að uppsetning fjárlagafrumvarpsins hvetji til rörsýnar þegar kemur að mati á útgjaldaþróun en slík rörsýn eykur hættuna á mistökum í meðförum þingsins.

Frumvarpið fór ekki til umsagnar í öðrum þingnefndum eins og venja hefur verið og því hafa aldrei jafnfáir þingmenn komið að umfjöllun um einstaka málaflokka þess. Frumvarpið er því að öllu leyti á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og ber vitni um bæði efnahags- og velferðarstefnu hans. Ekkert mat fylgir frumvarpinu á áhrifum útgjaldabreytinga á þá hópa sem munu til dæmis ekki njóta sömu þjónustu á þessu ári og fá skertar bætur á næsta ári.

Aldraðir og öryrkjar búa áfram við skert kjör

Á árinu 2009 var frítekjumark vegna atvinnutekna lækkað og tekjutengingar auknar sem skertu verulega kjör aldraðra og öryrkja. Ekkert mat lá til grundvallar þeim breytingum á fjölda þeirra sem ekki hefðu bætur eða lífeyri sem dugar til framfærslu. Það er óásættanlegt og löngu orðið tímabært að tryggja þessum hópum sambærilega tekjuaukningu og þá sem launafólk hefur borið úr bítum.

Að lokum er hægt að finna útgjaldaliði í fjárlagafrumvarpinu eins og ófyrirséð útgjöld fjármálaráðuneytisins sem þarf að útskýra betur. Í fjárlagafrumvarpinu 2012 var þessi liður rétt rúmir 3 milljarðar en í fjárlagafrumvarpinu 2013 5 milljarðar. Síðan hækkaði meiri hluti fjárlaganefndar þennan lið um 721 milljón í breytingartillögum sem lagðar voru fram fyrir þessa umræðu. Ófyrirséð útgjöld fjármálaráðuneytisins verða á næsta ári um tvisvar sinnum hærri en á þessu ári.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir útskýringu hæstvirts formanns fjárlaganefndar þar sem útskýring frumvarpsins er ekki trúverðug. Litlar líkur eru á því að gengisbreytingar, verðlagsbreytingar og náttúruhamfarir á næsta ári muni krefjast mun meiri útgjalda fjármálaráðuneytisins en á þessu ári.

Vonin stóð til þess að fólk yrði tekið fram yfir fjármagn

Ég hef allt frá því ég kom inn á þing gagnrýnt þá efnahagsstefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar sem kennir sig við norræna velferðarkerfið. Hæstvirtur formaður fjárlaganefndar talaði í ræðu sinni fyrr í dag um að á erfiðleikatímum skerptust hinar pólitísku áherslur frekar en áður. Það var einmitt von mín og margra annarra sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni að hrunið mundi leiða til umskipta í íslenskri pólitík að hrunið mundi fleyta flokkum til valda sem notuðu fjárlög markvisst til að draga úr efnahagsáfallinu og til að forgangsraða í þágu velferðar í stað fjármagnseigenda.

Það varð hins vegar ekki raunin því að hin svokallaða norræna velferðarstjórn hafði ekki hugrekki til að snúa af braut kreppudýpkandi áætlunar AGS í ríkisfjármálum á árunum 2009 og 2010. Hver hefði trúað því að flokkur eins og Vinstri græn tæki U-beygju og gerðist einn besti stuðningsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Fjármálakreppan varð því ekki til þess að skerpa hinar pólitísku línur heldur afhjúpaði þvert móti að enginn pólitískur áherslumunur er á hinum svokölluðu vinstri og hægri flokkum.

Norræna velferðarstjórnin nýtti ekki tækifærin á árunum 2009 og 2010 til að spyrna gegn kreppunni með því að hafna hávaxtastefnu AGS og kreppudýpkandi aðhaldsáætlun sjóðsins í ríkisfjármálum. Gjaldeyrishöftin, sem voru sett á í nóvember 2008, gáfu okkur einstakt tækifæri til að keyra vaxtastigið niður án þess að þurfa að óttast fjármagnsflótta úr landi. Vextir voru ekki lækkaðir við upptöku gjaldeyrishafta heldur var haldið fast við að setja heimsmet, eða alla vega Evrópumet, í vaxtastigi og nettóvaxtakostnaður ríkissjóðs undanfarin fjögur ár hefur verið um 181 milljarður eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar.

Afleiðingar kreppudýpkandi efnahagsstefnu AGS eru meðal annars minni hagvöxtur frá hruni en AGS reiknaði með í fyrstu áætlun sinni. Á árinu 2010 gerði AGS til dæmis ráð fyrir því að hagvöxtur yrði enginn en kreppudýpkandi efnahagsstefna sjóðsins og ríkisstjórnarinnar færði hann niður í mínus 4%. Heimilin í landinu björguðu þjóðinni frá enn frekari samdrætti efnahagslífsins með því að taka út séreignarsparnaðinn sinn, krefjast almennra skuldaúrræða, sem svarað var með greiðslu sértækra vaxtabóta, og málaferlum vegna gengislána.

Ekki verið hlustað á fagleg ráð og sérfræðiálit í efnahagsáföllum

Allt frá hruni hef ég talað um nauðsyn verulegrar vaxtalækkunar til að hraða efnahagsbatanum og til að verja velferðarkerfið gegn niðurskurði til að fjármagna vaxtagreiðslur eins og nú er raunin. Ég lagði jafnframt til að ríkið sækti skattgreiðslur sínar inn í lífeyrissjóðina og notaði þær til að fjármagna hægari niðurskurð hallans sem myndaðist í hruninu vegna hruns í skattgreiðslum. Ég lagði líka til að þessar skattgreiðslur ríkissjóðs hjá lífeyrissjóðunum yrðu notaðar til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Á þetta var ekki hlustað þrátt fyrir að ég væri hluti af stjórnarmeirihlutanum heldur keyrt á kreppudýpkandi efnahagsstefnu AGS.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir 2011 sagði ég meðal annars eftirfarandi:

„Það eru mikil vonbrigði að varnaðarorð um að fjárlögin muni dýpka kreppuna hafi ekki verið tekin alvarlega og að haldið sé dauðahaldi í efnahagsáætlun AGS þrátt fyrir að hagvaxtarforsendur hennar séu brostnar. Niðurskurður ríkisútgjalda við slíkar aðstæður mun stækka fjárlagafrumvarpið á næsta ári.“

Þessi varnaðarorð reyndust rétt og ríkisstjórnin neyddist til að hægja á niðurskurðaráætlun AGS á árinu 2011.

Skjaldborgin var reist í kringum fjármagnseigendur

Við höfum búið við hagvöxt undanfarin tvö ár en sá hagvöxtur hefur verið mun minni en áætlanir AGS gerðu ráð fyrir. Hagvöxtur hefur verið keyrður áfram af einkaneyslu þeirra sem fengu innstæður sínar að fullu tryggðar og úttekt viðbótarlífeyris þeirra sem barist hafa í bökkum við að ná endum saman. Fjárfesting tók ekki við sér fyrr en eftir að Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli. Fjárfestingar eru enn, og verða í nokkur ár, undir langtímameðaltali að mati Seðlabankans.

Nú hefur Seðlabankinn hafið vaxtahækkunarferli þrátt fyrir að stöðugt fleiri heimili lendi í vanskilum með lán sín og þrátt fyrir að stýrivaxtahækkun styrkir ekki gengið og dregur ekki úr verðbólgu, eins og segir í hagfræðiskólabókum, heldur veikir gengið og eykur verðbólgu þar sem vaxtagreiðslur til erlendra aðila, hrægammasjóða, aukast en þær má senda úr landi þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Útstreymi þeirra lækkar gengið sem þýðir þá verðhækkanir á innfluttum vörum og aukin verðbólga.

Í stað þess að slá skjaldborg um skuldsett heimili í kjölfar hrunsins, eins og stjórnarflokkarnir lofuðu kjósendum sínum, voru fjármagnseigendum tryggðar fullar innstæður, verðtrygging og gefið veiðileyfi á skuldsett heimili. Flokkar sem kenna sig við jöfnuð viðhéldu misskiptingunni í samfélaginu í nafni lífeyris gamla fólksins. Nú er svo komið að Íbúðalánasjóður þolir ekki misskiptinguna í samfélaginu og skattgreiðendur eru látnir leiðrétta halla sjóðsins með útgáfu ríkisskuldabréfa, sem nema um 43 milljörðum.

Erfiðleikar sjóðsins eru afleiðing þeirrar stefnu „norrænu velferðarstjórnarinnar“ að gera ekkert til að jafna byrðar þeirra sem fengu innstæður sínar að fullu tryggðar og hinna skuldsettu sem voru látnir taka á sig verðbólguskot hrunsins á sama tíma og laun lækkuðu, kaupmáttur rýrnaði og fasteignaverð lækkaði. Innstæðutryggða fólkið greiðir upp lán hjá Íbúðalánasjóði og nýtir sér betri kjör í bankakerfinu á sama tíma og þeir skuldsettu lenda í vanskilum og missa fasteignir sínar til Íbúðalánasjóðs.

Ríkisstjórnin kýs að gera ekkert í skuldakreppu almennings

Í stað þess að leiðrétta stöðuna áður en skuldsettar fjölskyldur lenda á götunni var ákveðið að gera ekkert og aðstoða síðan Íbúðalánasjóð með því sem hæstvirtur forsætisráðherra hefur úthrópað sem töfralausn eða útgáfu ríkisskuldabréfs en það er einmitt leiðin sem er farin í peningamillifærsluleiðinni til að leiðrétta skuldir heimilanna sem ekki er greiðslugeta fyrir.

Nú ætlar ríkisstjórnin að lengja efnahagsþrengingar almennings með því að bregðast ekki við þeirri staðreynd að við búum ekki lengur við bankakreppu heldur skuldakreppu.

Sífellt fleiri heimili sjá fram á gjaldþrot vegna verðbólguskota. Margir óttast líka framtíðina þar sem ríkisstjórnin virðist ekki hafa kjark til að koma fram með lausn á snjóhengjuvandanum sem tryggir hagsmuni almennings en ekki áhættufjárfesta og hrægammasjóða. Allir vita að aðeins tvær leiðir eru mögulegar.

Önnur leiðin felur í sér lánalengingu og takmarkanir á innflutningi. Ef sú leið verður fyrir valinu verður þjóðin hneppt í skuldafangelsi og margir munu forða sér úr landi; ekki síst unga fólkið okkar. Hin leiðin felur í sér að skuldir verða skrifaðar niður með því meðal annars að skylda þrotabúin til að greiða út í íslenskum krónum og borga þær eignir síðan út úr þrotabúunum en þó þannig að tekinn er skattur; annaðhvort í formi venjulegs skatts ríkissjóðs eða í gegnum mismunandi skiptigengi þegar við tökum upp nýkrónu.

Slíkur skattur, í formi skattheimtu eða upptöku nýs gjaldmiðils á mismunandi skiptigengi, er leiðin sem þarf að fara til að skrifa niður þessar eignir. Hún mun jafnframt tryggja að ríkissjóður hafi gjaldeyrisforða til að verja gengi krónunnar og jafnframt til að tryggja greiðslur af erlendum lánum þjóðarbúsins.

Velferðinni fórnað fyrir vexti

Margir stjórnarþingmenn hafa hreykt sér af hörku sinni við að skera niður ríkisútgjöld á erfiðum tímum og tala um að nú séum við að njóta afraksturs þess. Í mínum huga hefði verið mun aðdáunarverðara ef stjórnarþingmenn hefðu sýnt hugrekki til að snúa af braut aðhaldsfjárlaga á samdráttartímum og þenslufjárlaga á þenslutímum eins og raunin hefur verið allt frá lýðveldisstofnun.

Ef þeir hefðu sýnt hugrekki til að innleiða á árunum 2009 og 2010 þensluhvetjandi fjárlög, sem hægt hefði verið að fjármagna með skatti sem hið opinbera á í lífeyrissjóðum, en sjóðirnir hafa verið í vandræðum með að finna arðbær fjárfestingartækifæri og átt mikið fé á bankabókum. Slík fjárlög hefðu gert þörfina á niðurskurði minni 2011 og 2012. Auk þess værum við sennilega komin með svigrúm fyrir skattalækkanir. Það er eitt af uppáhaldsorðum Sjálfstæðisflokksins en fleiri geta tekið sér það orð í munn í en sjálfstæðismenn.

Virðulegi forseti. Fjárlög síðustu ára voru fjárlög hinna glötuðu tækifæra; fjárlög þar sem velferð var skorin niður fyrir vexti.

rakel@xc.is