Það var fámennt en góðmennt á félagsfundi aðildarfélags SAMSTÖÐU sem haldinn var í gærkvöldi. Tilgangur fundarins var að kynna framboð og tilnefningar sem fram hafa komið til kjördæmisráðs Reykjavíkurkjördæmis. Hlutverk kjördæmisráðs er að hafa „umsjón með því að setja saman framboðslista til Alþingis og sveitarstjórna“ en staðfesting landsfundar þarf á framboðslistum til að þeir teljist samþykktir.

Jón Þórisson fer yfir framboðin í kjördæmisráð Reykjavíkurkjördæmanna

Jón Þórisson, meðstjórnandi í stjórn SAMSTÖÐU, boðaði til fundarins í samstarfi við stjórn aðildarfélagsins í Reykjavík. Pálmey H. Gísladóttir, annar varaformaður flokksins, opnaði fundinn og bauð formanni flokksins, Birgi Erni Guðjónssyni, til ræðustóls þar sem hann flutti stutt ávarp.

Jón Þórisson tók þá við fundinum. Hann reifaði aðdraganda fundarins, útskýrði hlutverk kjördæmisráðs og fór yfir það sem kemur fram í samþykktum flokksins um val á framboðslista. (Sjá samþykktirnar hér) Auk þess vék hann lítillega að leið til slíks vals sem framkvæmdaráð flokksins hefur unnið að í samstarfi við stjórn hans.

Að lokum kynnti hann þá sem gefa kost á sér til kjördæmisráðs Reykjavíkurkjördæmis. Þeir sem voru mættir á fundinn eru eftirtaldir:

  • Ísleifur Gíslason
  • Jón Helgi Óskarsson
  • Júlíus Guðmundsson
  • Magnús Valgarðsson
  • Sigurlaug Ragnarsdóttir

Þar með telst fullskipað í kjördæmisráð Reykjavíkur en auk ofantalinna eru sex til viðbótar sem ýmist hafa gefið kost á sér eða verið tilnefndir. Haft verður samband við viðkomandi aðila til að leita staðfestingar á framboðum þeirra fyrir fund framkvæmdaráðs sem haldinn verður í næstu viku. Á þeim fundi mun framkvæmdaráð SAMSTÖÐU ekki aðeins ganga frá skipun í kjördæmisráð fyrir Reykjavík heldur öll kjördæmi landsins.

Rakel Sigurgeirsdóttir, formaður SAMSTÖÐU-Reykjavík, lokaði fundinum með því að fara yfir það sem er framundan hjá aðildarfélaginu í Reykjavík. Hún minnti á fund á vegum aðildarfélagsins næst komandi mánudagskvöld þar sem Guðrún Bryndís Karlsdóttir, verkfræðingur og sjúkraliði, flytur framsögu um þróunina í  heilbrigðisþjónustu landsmanna. Fundurinn er haldinn undir yfirskriftinni: Heilbrigðisþjónusta á hrakhólum.

Hún vék líka að síðasta fundinum á vegum aðildarfélagsins í yfirstandandi fundarlotu sem haldinn verður þann 6. desember. Hann verður kynntur hér nánar síðar. Auk þess benti hún á að aðlfundur SAMSTÖÐU-Reykjavík verður haldinn eftir áramót en þar fer fram kosning tveggja aðalfulltrúa og tveggja varamanna í stjórn aðildarfélagsins.

Í lokin hvatti hún viðstadda til að vekja athygli á síðum SAMSTÖÐU, bæði þessari og þeirri sem er inni á Facebook, og svo fjáröflunarverkefninu sem sérstök fjáröflunarnefnd undir forystu gjaldkera flokksins, Guðrúnar Indriðadóttur, stendur fyrir um þessar mundir.