Að undanförnu hafa fulltrúar í stjórn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar hringt í SAMSTÖÐUfélaga í þeim tilgangi að bæta við þær tilnefningar sem komu fram á landsfundi flokksins í kjördæmisráð. Eins og fram kemur í samþykktum flokksins er meginhlutverk kjördæmisráðs það að hafa „umsjón með því að setja saman framboðslista til Alþingis“. Þeir öðlast þó ekki gildi fyrr en landsfundur hefur samþykkt þá.

Það var framkvæmdaráð flokksins sem fól fulltrúum stjórnarinnar að hringja í félagana og fá fleiri í kjördæmisráð. Gengið verður frá skipunum í kjördæmisráð í öllum kjördæmum landsins á næsta framkvæmdaráðsfundi sem haldinn verður í næstu viku. Fulltrúar stjórnarinnar hafa að mestu lokið störfum sínum en í kjölfarið verða allir félagar í hverju kjördæmi upplýstir um það hverjir hafa gefið kost á sér í viðkomandi kjördæmi. Í Reykjavík verður þetta gert á félagsfundi sem fram fer nú í kvöld.

Reykjavík í vetrarbúningi

Fundurinn verður haldinn að Ofanleiti 2, annarri hæð, og hefst klukkan 20:00. Þar mun Birgir Örn Guðjónsson, formaður flokksins, ávarpa gesti en Jón Þórisson, sem hefur haft yfirumsjón með Reykjavíkurkjördæmunum í þessu verkefni, kynnir nöfn þeirra sem hafa gefið kost á sér og tekur við fleiri framboðum í kjördæmisráð. Gera má ráð fyrir klukkutíma fundi en í lok hans munu Jón Þórisson og Rakel Sigurgeirsdóttir, formaður aðildarfélagsins í SAMSTÖÐU, kynna það sem er framundan hjá flokknum og aðildarfélagi hans í Reykjavík.

Það skal tekið fram að eingöngu fullgildir meðlimir geta gefið kost á sér til kjördæmisráðs en fullgildur telst sá sem er orðinn 16 ára og hefur greitt félagsgjaldið. Þeir sem vilja gefa kost á sér í kjördæmisráð Reykjavíkurkjördæmanna þurfa að eiga lögheimili í Reykjvík.

Athygli er vakin á því að þeir sem hafa skráð sig í SAMSTÖÐU geta gengið frá greiðslu félagsgjalda á  fundinum en auk þess verður félögum boðið upp á að styrkja flokkinn með innkaupum á jólakortum, -pappír og/eða pennum. Framundan eru nefnilega ferðalög út í önnur kjördæmi landsins en þar sem SAMSTAÐA nýtur hvorki ríkisframlaga né annarra umfangsmikilla styrkja þarf að safna fyrir slíkum ferðalögum.

rakel@xc.is