Þingsályktunartillaga um aðskilnaður peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins var lögð fram á Alþingi eftir hádegi síðastliðinn miðvikudag. Flutningsmaður var Lilja Mósesdóttir, þingmaður og formaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU. Í ræðu sinni tók hún fram að hún væri eini flutningsmaðurinn en benti á að hér væri um „mikilvægt stefnumál sem SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar hefur sett á oddinn.“ En benti líka á að „Frosti Sigurjónsson hefur verið ötull baráttumaður fyrir aðskilnaði peningaprentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins“. (Sjá útdrátt úr fyrirlestri Frosta um þetta hér)

Þingályktunartillagan sem Lilja mælti fyrir gegnur í meginatriðum út á það „að bankar geti ekki lánað meira út en það sem þeir hafa fengið inn á bundna reikninga.“ Þar er gert „ráð fyrir því að nefnd sérfræðinga ljúki störfum strax í janúar á næsta ári.“ Skýringuna á þessum stutta tíma segir Lilja vera þá að ef ekki verði brugðist við strax þá stefni í annað hrun.

 Ástæðan fyrir því að skammur tími er gefinn til að vinna skýrsluna fyrir Alþingi og ástæðan fyrir því að ég legg fram þessa tillögu er sú, herra forseti, að ég óttast að ef við höldum áfram með óbreytt bankakerfi sem hefur nánast ótakmarkað leyfi til peningaprentunar munum við leiða yfir okkur annað efnahagshrun. Með öðrum orðum, tilgangur þingsályktunartillögunnar er ekki síst að koma í veg fyrir annað bankahrun.

Í framhaldinu útskýrir hún tillöguna um aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins nákvæmlega bæði framkvæmd og ávinning. Miðað við það hve hér er um mikilvægt þjóðþrifamál að ræða þá vekur það athygli að þingsalurinn var næstum því tómur og enginn þingmaður sá ástæðu til að tjá sig um þetta efni. Tillagan gengur hins vegar til síðari umræðu og efnahags- og viðsknefndar.

Þingsályktunartillaga Lilju Mósesdóttur um aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðskilnað peningamyndunar, sem í daglegu tali er nefnd peningaprentun, og útlánastarfsemi bankakerfisins.

Það er aðeins einn flutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu þar sem hér er um að ræða mikilvægt stefnumál sem SAMSTAÐA, flokkur lýðræðis og velferðar, hefur sett á oddinn. Ég vil þó geta þess að Frosti Sigurjónsson hefur verið ötull baráttumaður fyrir aðskilnaði peningaprentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins og hann hefur haldið kynningarfundi meðal almennings og jafnframt hjá öllum stjórnmálaflokkum, að því er ég best veit, þar með talið SAMSTÖÐU.

Tilgangurinn er að koma í veg fyrir annað hrun

Samkvæmt ályktuninni felur Alþingi hæstvirtum fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd sérfræðinga sem kanni hvernig hægt sé að tryggja aðskilnað peningamyndunar eða -prentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins með því að afnema heimildir bankanna til útlána umfram lausar innstæður. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, gengur þingsályktunartillagan út á að bankar geti ekki lánað meira út en það sem þeir hafa fengið inn á bundna reikninga.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að nefnd sérfræðinga ljúki störfum strax í janúar á næsta ári og að hún skili ráðherra skýrslu sem Alþingi taki síðan til umræðu. Ástæðan fyrir því að skammur tími er gefinn til að vinna skýrsluna fyrir Alþingi og ástæðan fyrir því að ég legg fram þessa tillögu er sú, herra forseti, að ég óttast að ef við höldum áfram með óbreytt bankakerfi sem hefur nánast ótakmarkað leyfi til peningaprentunar munum við leiða yfir okkur annað efnahagshrun. Með öðrum orðum, tilgangur þingsályktunartillögunnar er ekki síst að koma í veg fyrir annað bankahrun.

Aðferðin við aðskilnaðinn

Ég vil árétta í því sambandi að það er ekki nóg að aðskilja viðskiptastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi bankanna til þess að koma í veg fyrir annað hrun, það þarf líka að aðskilja peningaprentun og útlánastarfsemi bankanna til þess að tryggja að hér verði ekki annað hrun. Því er nefnilega þannig farið að megnið af peningunum sem eru notaðir í almennum viðskiptum eru rafræn innlán sem bankar hafa búið til með útlánum umfram innstæður.

Á mannamáli þýðir þetta að bankar byrja á því að veita útlán sem þeir leggja síðan inn á innlánareikninga. Þannig búa þeir til peninga. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðunni betrapeningakerfi.is kemur fram að Seðlabankinn býr til seðla og mynt sem er núna að upphæð um 40 milljarðar en bankarnir búa hins vegar til rafrænar óbundnar innstæður sem nema núna um 1 þús. milljörðum. Það er því gífurlegur munur á peningaprentun bankanna og prentun Seðlabankans í núverandi kerfi.

Hvernig fer þessi aðskilnaður fram milli peningaprentunar og útlánastarfsemi? Jú, hann fer fram með því að Alþingi samþykkir lagabreytingu sem heimilar Seðlabankanum einum að búa til peninga. Þá skiptir ekki máli hvort peningarnir eru í pappírsformi, úr málmi eða á rafrænu formi.

Með slíkri lagasetningu mundi Alþingi tryggja að hreinar vaxtatekjur, þ.e. vaxtatekjur af útlánum umfram innlán, færu til ríkisins í gegnum Seðlabankann en væru ekki hluti af hagnaði viðskiptabankanna eins og er í dag, en þessi tekjuuppspretta viðskiptabankanna er gífurleg.

Afleiðingar aðskilnaðarins er heilbrigðari bankastarfsemi

Aðskilnaðurinn mun ekki einungis auka tekjur Seðlabankans og þar með ríkisins heldur mun hann líka gefa Seðlabankanum betra tæki til að hafa stjórn á peningamagni í umferð. Hann getur með því að annaðhvort minnka eða auka peningamagn í umferð komið í veg fyrir að bankar búi til eignabólur með útlánastarfsemi sinni.

Það var einmitt það sem gerðist í bankakerfinu fyrir hrun. Bankarnir byrjuðu að lána í gríð og erg til fasteignakaupa og voru mjög tilbúnir að lána fólki sem hafði hvorki viðunandi veð né greiðslugetu. Það leiddi auðvitað til þess að bólan sprakk þegar kom að gjalddaga hjá þeim hópi sem aldrei hafði haft greiðslugetu til að borga af þessum stóru lánum.

Þegar aðskilnaðurinn fer fram breytist hlutverk viðskiptabankanna því að þeir munu ekki lengur liggja inni með það sem kallað er lausar innstæður, en það eru peningar sem viðskiptavini vilja hafa á reiðum höndum eða eiga auðvelt með að ná í. Slíkar lausar innstæður þarf að leggja inn í Seðlabankann þannig að bankarnir munu bara taka við innlánum sem fólk leggur inn á bundna reikninga, reikninga sem ekki er hægt að taka út af nema eftir einhvern ákveðinn tíma.

Þessi bundnu innlán geta bankarnir síðan notað til að lána viðskiptavinum sínum til ýmissa fjárfestinga eða til neyslu. Það verður auðvitað þannig að bundnir reikningar verða uppsegjanlegir með ákveðnum fyrirvara og lausir eftir ákveðinn tíma eins og er í dag, og bankarnir munu bjóða fólki misháa vexti eftir því hvað það vill hafa innlánin bundin í langan tíma.

Hlutverk peningamagnsnefndar

En það er sem sagt ekki nóg að breyta skipulagi eða verkefnum Seðlabanka og viðskiptabankanna, það þarf líka að koma á sérstakri peningamagnsnefnd. Sú nefnd mundi að vissu leyti líkjast peningastefnunefnd, í henni sætu sérfræðingar sem væru algjörlega óháðir framkvæmdarvaldinu.

Hlutverk peningamagnsnefndar væri að meta reglulega hvort þörf væri á að auka peningamagnið í umferð. Hún fengi ákveðna mælikvarða, samkvæmt lögum um nefndina, til að byggja ákvörðun sína á, mælikvarða eins og hagvöxt og atvinnustig í landinu.

Þessa tvo mælikvarða hefði nefndin til hliðsjónar við ákvarðanatöku um hvort auka þyrfti peningamagn í umferð eða ekki, með það að markmiði að tryggja stöðugleika. Það yrði líka að setja í lögin bann við því að nefndin tæki ákvörðun um að auka peningamagnið til að fjármagna ákveðnar fjárfestingar eins og t.d. byggingu nýs Landspítala. Nefndinni væri ekki heimilt að taka slíkar ákvarðanir því að þá mundi markmiðið um efnahagslegan stöðugleika falla um sjálft sig.

Segjum að peningamagnsnefnd komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að auka peningamagn í umferð til að tryggja 2% prósenta hagvöxt. Verg landsframleiðsla er á föstu verðlagi um 1.200 milljarðar og þá eykur nefndin peningamagnið um 24 milljarða. Þeir eru lagðir inn á reikning ríkissjóðs hjá Seðlabankanum og eru þá til fyrir ríkissjóð til fjárfestingar eða til að nota í aðra uppbyggingu sem ríkisstjórnin telur nauðsynlega til að tryggja hagvöxtinn.

Þetta er í raun mjög lýðræðisleg leið til að koma nauðsynlegu peningamagni í umferð þar sem það eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem sitja í ríkisstjórn sem taka ákvörðun um það hvernig auknu peningamagni er varið en ekki einkabankar eins og staðan er í dag.

Fjórþættur ávinningur

Virðulegi forseti. Hugmyndin um aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi bankanna er gömul. Hún kom fyrst fram upp úr kreppunni miklu í Bandaríkjunum. Ýmsir hagfræðingar byggðu á þekkingu sinni á því sem gerðist í kreppunni miklu og veltu fyrir sér hvernig hægt væri að breyta bankakerfinu þannig að ekki yrði aftur jafnmikil kreppa og bandaríska hagkerfið fór í gegnum í byrjun síðustu aldar. Á bak við hugmyndir hagfræðinganna um nauðsynlegar breytingar á peningakerfinu voru ekki neinar rannsóknir heldur byggðu þeir tillögur sínar á reynslugögnum.

En nýlega fóru nokkrir sérfræðingar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að kanna hvaða kostir og gallar væru við aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi. Merkilegt nokk, þeir komust að því að slíkur aðskilnaður skilar þeim ávinningi sem hagfræðingurinn Irving Fisher fullyrti að kæmi fram, samkvæmt módelum sem þeir notuðu til að meta þessar breytingar.

Fisher taldi ávinninginn vera fjórþættan og sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins staðfestu að sá fjórþætti ávinningur mundi nást með slíkum breytingum á núverandi peningakerfi.

  • Í fyrsta lagi mun aðskilnaðurinn bæta stjórn á hagsveiflum, ekki síst stjórn Seðlabankans á hagsveiflum og koma í veg fyrir skyndilega aukningu eða samdrátt í útlánum. Eins og ástandið er núna hefur verið töluvert um að bankar hafi aukið útlán sín gífurlega og dregið síðan saman eftir að hafa orðið fyrir áfalli eins og gerðist hérna eftir 2008.
  • Í öðru lagi mun aðskilnaðurinn varna öðru bankaáhlaupi og
  • í þriðja lagi mun hann jafnframt minnka opinberar skuldir þar sem það verður Seðlabankinn sem prentar peninga. Seðlabankinn getur notað peningaprentunina til að fjármagna halla ríkissjóðs eða fjárfestingar ríkissjóðs.
  • Í fjórða lagi mun aðskilnaðurinn draga úr skuldsetningu einstaklinga vegna þess að Seðlabankinn eða ríkið mun hafa það mikið fjármagn á milli handanna að ríkið getur keypt upp skuldir heimilanna þegar þess þarf.

rakel@xc.is