Sigurbjörn Svavarson er annar varaformanna SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar. Hér ávarpar hann kjósendur  og hvetur þá til að leggja breytingunum lið og skoða SAMSTÖÐU.

Í upphafi ávarpsins dregur Sigurbjörn upp mynd núverandi ástands í samfélaginu. Þar minnir hann á að ungt og efnilegt fólk flýi land í leit að atvinnu, öryrkjum og öldruðum sé ekki boðið upp á mannsæmandi líf og fjölskyldum landsins sé stefnt í voða með síhækkandi verðtryggðum skuldum og auknum sköttum. Í framhaldinu beinir hann þeirri spurningu til kjósenda hvort þeir séu tilbúnir til að sætta sig við þetta?

Hann segir að eina stefna stjórnvalda sé að koma landinu í ESB en segir jafnframt að sú stefna sé uppgjöf stjórnmálamanna sem treysti sér ekki til að stjórna landinu. Í framhaldinu spyr hann hvað við, kjósendur, getum gert til að blása nýju lífi í samfélagið og svarar spurningunni sjálfur með því að benda á að við getum gefið nýjum hugmyndum og nýju fólki, sem þorir að hverfa frá stöðluðum hugmyndum gömlu flokkanna, tækifæri. Hann segir það reyndar einu leiðina til að vega á móti úreltum lausnum og áhrifum sérhagsmuna sem gegnsýra gömlu flokkana