Í gærkvöldi kom nýtt framkvæmdaráð SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar saman á sínum fyrsta fundi eftir landsfund sem haldinn var helgina 6.-7. október. Eitt meginhlutverk framkvæmdaráðs er að vinna að pólitískri stefnumótun flokksins og halda utan um framkvæmdir á vegum hans. Samkvæmt samþykktum flokksins var fyrsta verkefni fundarins að velja framkvæmdaráðinu formann, varaformann og ritara.

Þessir voru valdir: Lilja Mósesdóttir er formaður framkvæmdaráðs, Rakel Sigurgeirsdóttir varaformaður þess og Vilhjálmur Bjarnason er ritari.

Í samþykktum SAMSTÖÐU er að finna nákvæmari lýsingu á skipan og hlutverki framkvæmdaráðs. Þar segir þetta um hlutverk:

6.5.  Hlutverk framkvæmdaráðs er:

6.5.1.     Að starfa með stjórn flokksins í pólitískri stefnumótun og úrvinnslu og framkvæmd stefnumála og ákvarðana stjórnar.

6.5.2.     Að skipuleggja landsfundi flokksins og fylgja eftir ályktunum landsfunda.

6.5.3.     Að annast tengsl við aðildarfélög, nefndir og vinnuhópa.

6.5.4.     Vinna að eflingu flokkstarfs um land allt; meðal annars með því að halda árlega opinn stjórnmálafund í hverju kjördæmi.

6.5.5.     Að hafa yfirumsjón með framkvæmdum, rekstri og eignum SAMSTÖÐU.

6.5.6.     Að tilnefna fólk í stjórnir, málefnanefndir, vinnuhópa og önnur trúnaðarstörf á vegum flokksins.

6.5.7.     Að taka ákvörðun um samvinnu við hagsmunasamtök og önnur stjórnmálasamtök.

6.6.  Ákvarðanir framkvæmdaráðs teljast löglegar séu þær samþykktar af meirihluta ráðsins og ef meirihluti þeirra sem á setu í ráðinu sitja fundinn.