Stjórnarskrármálið var tekið fyrir á 21. fundi Alþingis eftir hádegið í gær undir dagskrárliðnum sérstök umræða. Málshefjandi var Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, en forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, var til andsvara. Umræðan stóð í rúmar tvær klukkustundir og tóku alls 23 þingmenn þátt í henni. Einn þeirra var Lilja Mósesdóttir sem hóf mál sitt á þessum afdráttarlausu orðum: „Ég vil nýja stjórnarskrá sem gefur kjósendum möguleika á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál. Ég vil nýja stjórnarskrá sem kemur á svæðisþingum til að draga úr miðstýringu. Ég vil nýja stjórnarskrá sem tryggir að sem flest svæði á Íslandi eigi fulltrúa á Alþingi.“

Í framhaldinu tók Lilja það fram að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefðu valdið henni vonbrigðum sem stöfuðu af því að þær uppfylltu ekki ofangreindar kröfur um framgöngu lýðræðisins. Hún bætti því svo við að hún gerði sér grein fyrir að það væri ekki „hægt að fá allar óskir sínar uppfylltar“ en tók það fram að þar sem stjórnarskrártillögurnar reistu því skorður að mál eins og Icesave kæmust í þjóðaratkvæðagreiðslu þá gæti hún ekki stutt þær. Máli sínu lauk hún svo með því að undirstrika þetta: „Ég mun því hafna stjórnarskrártillögum sem takmarka möguleika kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Við lifum á tímum harðnandi átaka um hvernig eigi að verja skattpeningum kjósenda.“

Það sem vakti sérstaka athygli í þessum umræðum gærdagsins um tillögur stjórnlagaráðs var hve innihald ræðnanna var oft og tíðum í litlu samhengi við lengd þeirra. Hér að neðan er ræða Lilju Mósesdóttur bæði í mynd og texta. Þó henni hafi ekki verið úthlutaður lengri tími en rúmar þrjár mínútur til innleggsins er óhætt að segja að hún taki á meginkjarna þess sem gagnrýnendur frumvarpsdraga stjórnlagaráðs hafa bent á og styðji mál sitt sterkum rökum.

Ræða Lilju Mósesdóttur í umræðu um stjórnarskármálið:

Herra forseti. Ég vil nýja stjórnarskrá sem gefur kjósendum möguleika á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál. Ég vil nýja stjórnarskrá sem kemur á svæðisþingum til að draga úr miðstýringu. Ég vil nýja stjórnarskrá sem tryggir að sem flest svæði á Íslandi eigi fulltrúa á Alþingi.

Tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá ollu mér því vonbrigðum. Í 67. gr. stjórnarskrártillagnanna er kjósendum vissulega veittur réttur til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem varða almannahag en þó hvorki um „fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindinum né [...] um skattamálefni“. Þessar takmarkanir eru óásættanlegar.

Þrýstingurinn á skattgreiðendur að yfirtaka skuldir óreiðumanna hefur aldrei verið jafnmikill. Því verður að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál.

Í 39. gr. stjórnarskrártillagnanna er persónukjör innleitt og samtökum frambjóðenda veitt leyfi til að bjóða fram landslista sem þýðir í raun að landið verður eitt kjördæmi. Persónukjör og landslisti munu skerða möguleika fólks til að ná kjöri sem hefur ekki góðan aðgang að fjölmiðlum, m.a. vegna búsetu.

Í stjórnarskrártillögunum er ekki minnst á svæðisþing til að tryggja réttlátan hlut landsbyggðarinnar í skattlagningu auðlinda og til að færa ákvarðanatökuna nær fólkinu.

Herra forseti. Auðvitað átta ég mig á því að ekki er hægt að fá allar óskir sínar uppfylltar. Ég hef því velt fyrir mér hvaða ákvæði þyrfti að vera í drögum að nýrri stjórnarskrá til þess að ég geti samþykkt þau. Niðurstaða mín er sú að stjórnarskrártillögurnar verði að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu í öllum málum. Icesave-málinu er ólokið og fleiri sambærileg mál munu koma upp. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs mun forsetinn geta vísað öllum málum í þjóðaratkvæði. Afar ólíklegt er að forsetinn vísi máli í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ný stjórnarskrá bannar að greidd verði þjóðaratkvæði um.

Ég mun því hafna stjórnarskrártillögum sem takmarka möguleika kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Við lifum á tímum harðnandi átaka um hvernig eigi að verja skattpeningum kjósenda. (sjá hér)

                                                                                                                                  rakel@xc.is