Sjötta ályktunin frá landsfundi SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar hefur verið send á fjölmiðla. Þær fimm eru farnar áður eru eftirtaldar:

  • Ályktun um verðtryggingu, framfærsluvanda og skuldamál heimilanna
  • Ályktun um stöðu bótaþega og annarra sem þurfa á stuðningi velferðarkerfisins að halda
  • Ályktun um aðildarviðræður við ESB
  • Ályktun um sjávarútvegsmál
  • Ályktun um gjaldmiðilskreppuna

Flutningsmaður ályktunar á landsfundinum, sem var haldinn helgina 6. til 7. október á Hótel Hafnarfirði, var Lilja Mósesdóttir.

Ályktun um aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins.

Landsfundur vill að skipuð verði nefnd sérfræðinga sem verði falið að kanna hvernig hægt sé að tryggja aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins með því að afnema heimildir bankanna til útlána umfram lausar innistæður.

Í núverandi peningakerfi er innlánsstofnunum heimilt að búa til ígildi peninga með útlánum umfram innstæður. Í raun er megnið af þeim peningum sem notaðir eru í almennum viðskiptum rafræn innlán (rafrænn greiðslumiðill?) sem einkabankar hafa búið til með útlánum umfram innstæður.

Aðskilnaður peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins fari þannig fram að lögum verði breytt til að heimila Seðlabanka einum að búa til peninga hvort sem peningarnir eru úr pappír, málmi eða á rafrænu formi. Með þessari lagabreytingu færast hreinar vaxtekjur (vaxtatekjur af útlánum umfram vaxtagjöld af innlánum) að miklu leyti til Seðlabankans sem bankar hafa fram til þessa hagnast af.

Aðskilnaðurinn mun gefa Seðlabankanum betri stjórn á peningamagni í umferð og koma í veg fyrir að bankar búi til eignabólur með útlánastarfsemi sinni. Mikilvægt er að skoða kosti og galla slíks fyrirkomulags hér á landi til að koma í veg fyrir annað bankahrun.

Nýleg rannsókn sérfræðinga sem starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum staðfestir að slíkur aðskilnaður skilar þeim ávinningi sem Irving Fisher (1936) fullyrti að þær myndu gera, þ.e. að:

  1. bæta stjórn á meginorsakavaldi hagsveiflna sem er skyndileg aukning og samdráttur útlána og framboð á peningum sem bankar búa til,
  2. varna bankaáhlaupi,
  3. minnka opinberar skuldir og
  4. draga úr skuldsetningu einstaklinga þar sem peningamyndun þarf ekki lengur að byggja á lántöku.