Lilja Mósesdóttir beindi spurningu til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um efnahagsáætlun AGS í óundirbúnum fyrirspurnartíma á 17. fundi Alþingis sem fram fór fyrir hádegi sl. fimmtudag. Lilja spurði forsætisráðherrann hvort hann „sé sammála AGS um að efnahagsstefna hennar hafi dregið úr efnahagsbatanum eftir bankahrun.“ Eftir nokkur orðaskipti vísaði Jóhanna til áhrifa alþjóðakreppunnar sem hefði komið í veg fyrir að upphaflegar hagvaxtaspár AGS fyrir íslenska efnahagsþróun hefðu náð fram að ganga og lauk máli sínu á því að hvetja Lilju Mósesdóttur til að líta „jákvæðari augum“ á það hvernig ríkisstjórnin hefur „verið að vinna  okkur út úr kreppunni.“

Það vekur sérstaka athygli að ekkert var fjallað um þessar umræður í fréttatíma Sjónvarpsins sl. fimmtudagskvöld. Þetta andvaraleysi fréttastofunnar hlýtur að skrifast á einhverjar sérstakar ástæður sem  hafa verið bundnar þessum degi. Annað getur tæplega skýrt það að Sjónvarp allra landsmanna sá ekki ástæðu til að fjalla um umræður kreppuhagfræðingsins og forsætisráðherrans um það að í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er það viðurkennt að efnahagsáætlunin sem ríkisstjórnin hefur keyrt samkvæmt ráðleggingum sjóðsins eftir hrun sé kreppudýpkandi.

Hér verður bætt úr þessum skorti á umfjöllum og umræðan birt í heild sinni ásamt nokkuð ýtarlegri samantekt á efnislegu innihaldi fyrirspurnarinnar sjálfrar, framhaldi hennar og lyktum.

Fyrirspurn Lilju Mósesdóttur:

Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins viðurkennir sjóðurinn að efnahagsáætlun eins og sú sem AGS keyrði hér í gegn eftir hrun sé kreppudýpkandi.

Í október 2008 varaði ég við efnahagsáætlun AGS og vísaði í slæma reynslu annarra þjóða (sjá hér). Hjarðhagfræðingar háskólanna og fylgisfólk AGS gerðu lítið úr reynslu annarra þjóða og rökum þeirra sem gagnrýndu stefnuna. Efnahagsáætlun AGS var frá upphafi framfylgt af mikilli fylgispekt. Afar háir vextir voru hækkaðir enn frekar og sultaról almennings hert með skattahækkunum og niðurskurði á ríkisútgjöldum. Allt í samræmi við efnahagsáætlun AGS.

Við vorum nokkur í þingflokki VG sem reyndum að sannfæra aðra stjórnarliða árið 2009 og 2010 um nauðsyn þess að fara hægar í niðurskurð og vinna þannig gegn neikvæðum áhrifum hárra vaxta og skuldakreppu heimila og fyrirtækja.

Þessu lauk með hjásetu þingmannanna: Atla Gíslasonar, Ásmundar Einars Daðasonar og Lilju Mósesdóttur við afgreiðslu fjárlaga í desember 2010 (sjá t.d. hér). Viðbrögð forsætisráðherra við hjásetunni voru þau að hvetja þessi þrjú til að íhuga stöðu sína í stjórnarliðinu.

Nú hefur AGS viðurkennt að efnahagsáætlun eins og sú sem forsætisráðherrann studdi dyggilega geri lífskjör almennings verri og skuldir hins opinbera hærri en ella. Lilja lauk máli sínu með því að beina þeirri spurningu til forsætisráðherrans, Jóhönnu Sigurðardóttur, hvort hún „sé sammála AGS um að efnahagsstefna hennar hafi dregið úr efnahagsbatanum eftir bankahrun?“

Svar Jóhönnu Sigurðardóttir:

Ég held að þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til og eins fyrrverandi ríkisstjórn strax í kjölfar kreppunnar með neyðarlögunum og samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi verið heillaskref. Ég held að það hafi hjálpað okkur mjög til þess að vinna okkur út úr kreppunni og komast inn í endurreisnina eins og við höfum verið að gera. Til eru mjög margar upplýsingar um það, sem ég tel að hafi varla farið fram hjá [þingmanninum, Lilju Mósesdóttur], sem sýna að við erum á réttri leið með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Nýlega hafa Írland og Ísland verið borin saman að því er varðar kreppuna og fleiri lönd reyndar líka. Sá samanburður sýnir að þær aðgerðir sem við höfum farið í hafa bæði skilað okkur því að ríkissjóður er á réttri leið og að við munum ná jöfnuði í ríkissjóði á næsta ári sem mun sparar okkur verulega mikla vexti. Vextir eru mjög þung byrði á okkur, yfir 80 milljarðar kr. Það er leið til þess að vinna sig út úr því [sem er] sú leið sem við höfum farið að því er varðar ríkissjóð.

Þá vísar Jóhanna Sigurðardóttir í nýlega skýrslu frá greiningardeild Íslandsbanka sem hún segist hafa fyrir framan sig. Heiti hennar er: Hagkerfið er komið út úr kreppunni og segir Jóhanna að hún sýni „það einmitt svo ekki verður um villst.“

Þar er talað um að vöxtur sé á flestum sviðum efnahagslífsins, að markverður árangur hafi náðst í því að vinna á kerfisvandamálum og hagvöxtur er hóflegur. Ég trúi því ekki að það hafi farið fram hjá [þingmanninum, Lilju Mósesdóttur] að hagvöxtur hér er meiri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hann er þó á milli 2% og 3% hér á meðan hann er miklu minni til dæmis í Evrópulöndunum.

Kaupmáttur hér er að aukast verulega, það sjáum við, og allar hagtölur sýna að við erum á réttri leið. Ég get því ekki verið sammála því, ef það hefur verið viðhorf AGS, sem hefur nú yfirleitt hrósað aðgerðum ríkisstjórnarinnar fremur en hitt, að við höfum gert eitthvað rangt í þessum efnum.  Ég held að við höfum gert eins vel og mögulegt var við þær erfiðu aðstæður sem þessi ríkisstjórn hefur verið í að koma okkur út úr kreppunni.

Lilja Mósesdóttir hvetur forsætisráðherra til að viðurkenna hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar

Lilja Mósesdóttir brást við þessu svari Jóhönnu Sigurðardóttur með því að hvetja hana: „til að sýna meiri auðmýkt og viðurkenna hagstjórnarmistök sem hafa þýtt að hagvöxtur hér á landi er um 2-3% en ekki 3-4%, eins og AGS gerði ráð fyrir. Röng efnahagsstefna hefur því þýtt tap fyrir skattgreiðendur upp á um 16 milljarða.“

Þvert á efnahagsáætlun AGS, sem norræna velferðarstjórnin innleiddi hér með þrælslund, ráðleggur AGS nú kreppulöndum að taka upp lausbeislaða peningastefnu. Slík stefna hér á landi mundi þýða að við mundum lækka vexti verulega og afnema verðtrygginguna, en ríkisstjórnarflokkarnir hafa hafnað báðum þessum leiðum. AGS leggur líka áherslu á að tapaðar skuldir í bankakerfinu verði leiðréttur. Ríkisstjórnin hefur frekar kosið að fara í langdregið dómsferli en að þrýsta á  leiðréttingu skulda. Dómstólaleiðin hefur hægt á efnahagsbatanum og hún mismunar fólki eftir því hvar það tók lán og líka eftir því hvort það hafði efni á því að standa í skilum eða ekki.

Jóhanna Sigurðardóttir: Ljóst að við lítum ólíkum augum á árangurinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lauk þessari umræðu um efnahagsáætlun AGS með þeim orðum að það væri alveg ljóst að þær Lilja Mósesdóttir líti það með ólíkum augum hvernig ríksisstjórninni hefur tekist að vinna sig út úr kreppunni og bætir við:

Og við það verður bara að sitja. [Hvað með AGS?] Þeir í AGS hafa oft bent á Ísland sem lönd í erfiðleikum og kreppu ættu að taka sér til fyrirmyndar. Þeir hafa meðal annars bent á velferðarkerfið. Hvernig okkur hefur tekist að verja það þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem við höfum lent í.

Þegar [þingmaðurinn, Lilja Mósesdóttir ] bendir á að AGS hafi spáð hærri hagvexti en er núna,3-4% og á móti 2-3%, þá er náttúrlega alveg ljóst að Ísland hefur ekki farið varhluta af þeirri alþjóðakreppu sem verið hefur hér sem hefur haft áhrif á meðal annars fjárfestingar. Ég hvet því [þingmanninn, Lilju Mósesdóttur] til að líta jákvæðari augum en hæstvirtur þingmaður [svo] á það hvernig við höfum verið að vinna okkur út úr kreppunni. (sjá þennan texta óstyttan hér)

rakel@xc.is