Frá því að Lilja Mósesdóttir settist inn á þing hefur hún sett málefni þeirra sem efnahagshrunið kom harðast niður á á oddinn. Framganga hennar í skuldamálum heimilanna, og tillögur að lausn efnahagsvanda sem ógnar velferð almennings, hafa aflað henni þess trausts meðal kjósenda að margir hvöttu hana til að stofna flokk.

Í upphafi ársins var SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar kynntur til stjórnmálalitrófsins á blaðamannafundi í Iðnó. Þá sjö mánuði sem eru liðnir síðan hafa meðstofnednur Lilju ásamt fleirum, sem hafa gengið til liðs við þau, lagt á sig mikla vinnu við að kynna flokkinn fyrir kjósendum með ýmsu móti. Fátt hefur þó reynst jafn árángurríkt til kynningar því eins og yfirlýsing núverandi formanns, Lilju Mósesdóttur, á dögunum.

Fyrir fyrsta blaðamannafundinn var skipuð sjö manna bráðabirgðastjórn sem skyldi sitja fram til fyrsta landsfundar flokksins. Í upphafi var áætlað að halda aukalandsfund í maí eða júní þannig að félagsmenn fengju tækifæri til að kjósa hinum nýstofnaða flokki stjórn og koma með ályktanir varðandi samþykktir flokksins og málefnaflokkana í grundvallarstefnuskránni. Það er þessi fundur sem verður haldinn nú í byrjun október.

Skráning á fundinn er hafin (sjá hér) en allir sem hafa greitt félagsgjaldið hafa rétt til setu og atkvæðagreiðslu á landsfundinum. Skráningin fer fram hér á heimasíðu flokksins en skráningarhnappur hefur verið settur á upphafssíðuna. Félagsmenn eru hvattir til að skrá sig fyrir 24. september. Vakin er athygli á því að þessi fyrsti landsfundur flokksins, sem verður haldinn á höfuðborgarsvæðinu, hefur nú verið settur niður á tvo daga. Við gerum ráð fyrir að margir brenni fyrir sömu málefnum og SAMSTAÐA hefur sett á oddinn og fjölmenni því á fundinn og tryggi þannig framtíð flokksins.

Fyrri dagurinn, laugardagurinn 6. október, hefst á skýrslu formanns en þá tekur við stjórnmálaumræða og svo kosning formanns, varaformanna og fulltrúa í stjórn flokksins og kjördæmaráð í hverju kjördæmi. Í ljósi þess að Lilja Mósesdóttir hefur lýst því yfir að hún hafi ekki áhuga á að gegna formennsku meðfram þingstörfum hafa nokkrir sýnt áhuga á að leiða flokkinn með þeirri stjórn sem félagsmenn munu kjósa sér.

Rétt er að hvetja þá sem brenna fyrir því að styrkja flokk sem hefur það að forgangsatriði að leiðrétta stöðu heimilanna í landinu að bjóða sig fram til starfa. Þeir sem vilja bjóða sig fram til formennsku eða stjórnar flokksins eða í kjördæmaráð, sem hefur það hlutverk að velja frambjóðendur á lista síns kjördæmis, eru hvattir til að gera það fyrir fyrir 24. september með því að senda inn framboðskynningar á póstfang flokkins (samstada@xc.is)

Seinni daginn, sunnudaginn 7. október, verður svo farið yfir þær ályktanir sem hafa borist varðandi málefnaflokka grundvallarstefnuskráarinnar og samþykktir flokksins. Félagsmenn eru hvattir til senda inn drög að ályktunum og breytingartillögur við samþykktir flokksins fyrir 24. september á samstada@xc.is. Lokafrestur til að skila slíkum ályktunum rennur út klukkutíma áður en seinni hluti landsfundarins hefst.

Það er von þeirra sem hafa staðið að uppbyggingu SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar hingað til að félagsmenn og annað stuðningsfólk fjölmenni á landsfundinn, bjóði sig fram til starfa og taki þátt í áframhaldandi uppbyggingu þannig að draumur okkar um að bjóða upp á öflugan og trúverðugan valkost í alþingiskosningunum næsta vor verði að veruleika.

Rétt er að taka það fram að landsfundargestir eru beðnir um að taka þátt í kostnaðinum sem hlýst af fundarhaldinu með því að greiða 3.000,- kr. þátttökugjald. Félagsmenn fá nánari upplýsingar um tilhögun landsfundarins í fréttabréfi flokksins sem verður sent út á þá félagsmenn sem gáfu upp póstfang við skráningu. Fréttabréf með þessum upplýsingum verður sent út í vikunni og svo annað þegar nær dregur fundinum.

Krækjur á grundvallarstefnuskrána, hugmyndafræði, stofnsamþykktir og stefnumótandi ályktanir/yfirlýsingar frá stjórnarmeðlimum flokksins:

Hugmyndafræði SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.

Grundvallarstefnuskrá SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.

Ályktun aðildarfélags SAMSTÖÐU-Reykjavík varðandi aðildarviðræðurnar við ESB og undirtektir Lilju Mósesdóttur við hana.

Yfirlýsing stjórnar flokksins um veiðigjald á auðlindir sjávar.

Stofnsamþykktir SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.