Stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík stóð fyrir fundaröð núna í vor þar sem fjallað var um fjármálastefnuna og framtíðina. Fyrsti fundurinn var haldinn mánudagskvöldið 30. apríl og síðan á hálfsmánaðarfresti fram til 11. júní (Sjá frétt frá honum  hér). Framsögumenn á þessum fundum voru þau: Frosti Sigurjónsson, Jón Helgi Egilsson, Sigurður Hannesson og Lilja Mósesdóttir sem öll eru sérfræðingar á fjármálasviðinu. Karlmennirnir voru aðalframsögumenn á fyrstu fundunum þremur en Lilja Mósesdóttir á þeim síðasta.

Á síðasta fundinum, sem haldinn var mánudagskvöli 11. júní, fluttu karlmennirnir útdrætti úr fyrirlestrum sínum. Þeir, ásamt fyrirlestri Lilju, voru teknir upp í þeim tilgangi að allir sem áhuga hefðu gætu kynnt sér innihald þeirra. Það er búið að klippa og setja fyrirlestra karlmannanna inn á Netið. Þá má nálgast alla hér. Hér á síðu SAMSTÖÐU hefur verið fjallað ýtarlegar um fyrirlestur Frosta Sigurjónssonar og Jóns Helga Egilssonar með birtingu á erindum þeirra á myndbandi og samantekt á innihaldi fyrirlestursins.

Þriðji framsögumaðurinn á fundinum var Sigurður Hannesson og þá Lilja Mósesdóttir en erindi hennar verður gert aðgengilegt á Netinu á næstu dögum. Erindi dr. Sigurðar Hannessonar, stærðfræðings, er hér:

Sigurður Hannesson flutti tæplega 10 mínútna erindi þar sem hann fór yfir gjaldeyrishöftin. Í upphafi benti hann á að kostnaður við höftin væri mikill og skaðsemi þeirra því töluverð. Því til áréttingar taldi hann upp dæmi um glötuð tækifæri eins og hvatann sem höftin skapa til að skilja eftir gjaldeyri erlendis. Hann benti á að afleiðingar gjaldeyrishaftanna eru hægfara hrörnun hagkerfisins sem sjást ekki dag frá degi en á lengra tímabili verða þær vel sýnilegar í umhverfinu.

Aflandskrónurnar

Sigurður Hannesson sagði að staðan nú væri sú að rúmlega 1.000 milljarðar króna (snjóhengjan) væru í eigu erlendra aðila sem vildu fara út úr hagkerfinu á næstu árum ef þess væri nokkur kostur. Lítill hluti þessara króna er vaxtaberandi í dag. Þetta verður meira vandamál á komandi árum þegar stærri hluti þessara króna ber vexti og eigendurnir geta fært vextina úr landi. Þetta mun setja aukinn þrýsting á veikingu krónunnar.

Í dag er áhætta ríkisins takmörkuð vegna þess að meginþorri aflandskrónanna eru kröfur fjármálafyrirtækja á gömlu bankana í erlendri mynt. Tæp 25% snjóhengjunnar eru kröfur á ríkið, þ.e. skuldabréf í eigu aflandskrónueigenda.  Það er því mjög varasamt að hleypa snjóhengjunni út úr hagkerfinu með skuldabréfaútgáfu í erlendum gjaldmiðlum til langs tíma, þar sem slík aðgerð mun auka gjaldmiðlaáhættu ríkissjóðs verulega.

Núverandi áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna snýst í stuttu máli um það að örva langtíma fjárfestingar. Í því augnamiði hefur Seðlabankinn farið af stað með svokallaða fjárfestingarleið. Hún miðar að því að þeir sem vilja koma til Íslands og vera í lengri tíma geta komið inn á hagstæðum kjörum og aðrir sem eru óþolinmóðir geta þá farið út á móti á mun lægra gengi en skráð gengi krónunnar. Hugmyndin er að setja ekki á útgönguskatt á útstreymi aflandskróna fyrr en síðar en ríkið fjármagni skiptin með því að gefa út skuldabréf.

Sigurður bendir á að það sé mjög mikilvægt að áhætta ríkisins sé ekki aukin með þessari ráðstöfun.

Trúverðugleiki fjárfestingarleiðarinnar

Opinber áætlun gerir ráð fyrir því að höftin verði afnumin á næsta ári eða í lok ársins 2013. Gallinn er sá að það er enginn sem trúir að af því geti orðið. Eigendur aflandskrónanna trúa því ekki og ekki markaðurinn sjálfur. Staðan er því sú að þó fjárfestingarleiðin kunni að virka þá er enginn sem trúir því.

Þetta er mikið vandamál og svo hitt að eigendur aflandskrónanna eru ekkert á leiðinni út enda eiga þeir möguleika á hárri ávöxtun. Seðlabankastjóri sagði líka fyrir nokkru að hér væri hægt að fá bestu ávöxtun í heimi. Það er því ólíklegt að eigendur aflandskrónanna hafi nokkurn áhuga á að fara í burtu með sitt.

Þegar erlendar fjárfestingar eru skoðaðar í sögulegu samhengi þá er ljóst að hingað til hafa þær aðeins verið lítið brot af landsframleiðslunni. Það þýðir að það tekur marga áratugi að afnema gjaldeyrishöftin ef fjárfestingarleiðin á að duga til eingöngu.

Önnur forgangsröðun er möguleg

Afnám aflandskrónunnar er í fyrsta sæti nú. Þegar þeim hefur verið komið út úr hagkerfinu er komið að innlendum aðilum sem þýðir að aðgerðinni er ætlað að greiða þessa skuld sem mun taka næstu áratugina. Gjaldeyririnn sem skapast fer þess vegna að langmestu leyti í að losa þessar aflandskrónur með þeim afleiðingum að hagkerfið veikist með tímanum.

Í þessu ljósi velti Sigurður því upp hvort það kynni ekki að vera betra að snúa þessu þannig að aflandskrónurnar yrðu afmarkaðar á einhvern hátt og byrjað á því að aflétta höftum á innlenda hagkerfið. Með því móti færu hagsmunir beggja betur saman. Það eru hagsmunir þeirra sem búa á Íslandi og þeirra sem eiga aflandskrónur og eru fastir innan hagkerfisins að vel gangi á Íslandi.

Af þessu tilefni tók Sigurður það fram að upptaka annarrar myntar væri engin töfralausn ein og sér þó hann útilokaði ekki að slíkt gæti gengið.

Leiðir út úr gjaldeyrishöftunum

Það er hægt að greiða skuldina en það er ekki mögulegt að gera það að öllu leyti nema skerða lífsgæðin allverulega. Það er þess vegna skynsamlegra að draga úr skuldum með afskriftum. Til þess að borga niður skuldirnar eru nokkrar leiðir færar.

  1. Útgöngugjald eða skattur á útstreymi aflandskróna.
  2. Fjárfestingarleið í gegnum uppboðsmarkað.
  3. Upptaka nýkrónu á mismunandi gengi til að afskrifa froðueignir og skuldir.

Svo er það endurfjármögnun sem gengur út á það að þeir sem vilja fara út úr hagkerfinu fara út en aðrir sem vilja binda sig til langs tíma koma inn í staðinn. Sigurður benti á að fjárfestingarleiðin gengur út á þetta en minnti á það sem hann hafði tekið fram áður um að í sögulegu samhengi væru þessar fjárfestingar svo óverulegar að þessi leið dugar ekki ein og sér. Í framhaldinu benti hann á að það þarf að auka tekjur þjóðarbúsins með því að framleiða meira og selja meira.

Hins vegar er vandamálið það að í stóru útflutningsgreinunum okkar, sem eru: sjávarútvegur, stjóriðja og ferðaþjónusta, þá er framleiðslugeta okkar nær fullnýtt. Auknar fjárfestingar þurfa þess vegna að koma til svo hægt sé að skapa aukatekjur.

Til að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin þarf að:

  1. afskrifa skuldir.
  2. endurfjármagna.
  3. framleiða meira.

Það er pólitískt mál hvernig þetta verður gert. Það verður að taka inn í reikninginn hvaða afleiðingar samfélagið er tilbúið að búa við. Það er þess vegna ekki til ein „rétt leið“ en hún þarf að vera trúverðug. Í því sambandi benti Sigurður á að miðað við núverandi stefnu þurfi að huga að því hvað tekur við eftir að krónunni hefur verið fleygt og undirstrikaði að peningastefnan þurfi að vera trúverðug til að allt fari ekki í sama farið aftur.