SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar óskar öllum innilega til hamingju með þjóðhátíðardaginn

Mynd af íslenska fánanumÍslenski þjóðhátíðardagurinn er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar og er haldinn hátíðlegur 17. júní ár hvert. Árið 1944 var 17. júní valinn stofndagur lýðveldisins. Síðan þá hefur hann verið opinber þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga og almennur frídagur.

Jón forseti var helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Hin fleygu orð:  „Vér mótmælum allir“ voru mælt á þjóðfundi sem danska stjórnin boðaði til í Reykjavík 9. ágúst 1851. Þar lagði danska stjórnin fram frumvarp um nýja stjórnskipun þar sem réttindi Íslendinga væru nær engin og lítið tillit tekið til óska þeirra. Þá lögðu íslensku fulltrúarnir fram annað frumvarp að undirlagi Jóns Sigurðssonar. Konungsfulltrúanum, Trampe greifa, líkaði ekki frumvarpið og ákvað að leysa fundinn upp í nafni konungs. Þá mótmælti Jón Sigurðsson lögleysu fulltrúa Danakonungs og flestir fundarmenn risu úr sætum og mæltu flestir einum rómi hin fleygu orð: „Vér mótmælum allir“. Þessi atburður er talinn vera einn mikilvægasti atburður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Þessi atburður minnir okkur á mikilvægi þess að standa saman um sjálfstæði, lýðræði og velferð íslensku þjóðarinnar. Við erum fámenn þjóð en við getum verið sterk þjóð ef við sýnum samstöðu um sameiginleg hagsmunamál okkar allra. Nefna má Icesave samninginn sem dæmi um atburð á okkar tímum þar sem meirihluti þjóðarinnar reis upp og mótmælti frumvarpi um lög sem hefðu haft skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskan almenning og skapað fordæmi þess að velta skuldum einkaaðila yfir á herðar skattgreiðenda. Icesave málið er þó enn ekki útkljáð að fullu.

Það er okkar sameiginlega verkefni að byggja betra samfélag og reisa upp styrkari stoðir en þær sem hrundu árið 2008. Nú er komið að okkur að marka veg framtíðarinnar og ákveða sjálf hvernig við viljum haga okkar málum m.a. með nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Valdið á að vera íslensku þjóðarinnar en ekki fámennra sérhagsmunahópa. Hvernig stjórnskipun vill meirihluti íslensku þjóðarinnar? Hvernig vill íslenskur almenningur ganga um og ráðstafa sameiginlegum auðlindum sínum? Hvernig er hægt að leiðrétta þá skuldaklafa sem velt hefur verið yfir á almenning í kjölfar hrunsins? Hvernig er hægt að standa vörð um íslenska velferðarkerfið og koma í veg fyrir að grunnstoðir samfélagsins hnígi ekki til falls? Þetta eru meðal margra þeirra spurninga og málefna sem félagar í SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar hafa rætt og markað ákveðna grundvallarstefnu um sem smám saman er útfærð nánar í málefnastarfi. Flokkurinn byggir á ákveðnum rótum og grunngildum sem sjá má hér fyrir neðan og er að finna í grundvallarstefnuskránni.

I. Rætur
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar sprettur úr íslensku umhverfi og leggur áherslu á þann lærdóm sem draga má af stjórnmálasögu landsins og sérkennum íslensks efnahagslífs og samfélags. Sú stefna sem verið hefur við lýði síðastliðna rúma tvo áratugi hefur leitt til óásættanlegs ójafnaðar í samfélaginu, spillingar og loks félags- og efnahagslegs hruns árið 2008. Lausnir sem reyndar hafa verið frá hruni hafa ekki bætt hag íslenskra heimila og fyrirtækja og því er knýjandi þörf fyrir nýjar leiðir og lausnir. Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar vill byggja á hugmyndafræði samstöðu meðal landsmanna.

II. Grunngildi
Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar er lýðræðissinnuð stjórnmálahreyfing sem vinnur að því að íslenskt samfélag byggi á grunngildum jafnaðar, samvinnu og sjálfbærni. Samstaða byggir stefnu sína á siðferðilegum forsendum réttlætis, mannúðar og heiðarleika.

Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar telur sérstöðu íslensks samfélags felast í smæð þess. Sérstaðan skapar tækifæri til valddreifingar og lýðræðis sem einkennist af beinni þátttöku almennings í mikilvægum ákvarðanatökum samfélagsins, hvort heldur er á landsvísu eða í nærsamfélaginu. Samstaða telur að vegna smæðar samfélagsins sé tilhneiging til fákeppni í efnahagslífinu sem skapar skilyrði fyrir samþjöppun valds á hendur fámennra forréttindahópa. Samstaða telur því brýnt að sporna gegn fákeppni og samþjöppun með eflingu lýðræðis, skilvirkari löggjöf og auknu gagnsæi.

Samstaða – flokkur lýðræðis- og velferðar er fjöldahreyfing almennings sem tekur þátt í þróun samfélagsins með virkum lýðræðislegum hætti og upplýstri rökræðu. Frumkvæði, áhugi og þekking einstaklinganna er virkjuð til að skapa betri lausnir. Því leggur Samstaða áherslu á hlutverk frjálsra félagasamtaka og félagshagkerfisins á sviðum velferðarþjónustu og atvinnulífs.