Það hefur vart farið fram hjá neinum að stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík hefur staðið fyrir framhaldsfundaröð að undanförnu undir heitinu: Fjármálastefnan og framtíðin. Síðasti fundur þessarar framhaldsfundaraðar var haldinn sl. mánudagskvöld. Frétt af honum var birt hér. Framsögumenn á þessum fundum voru þau: Frosti Sigurjónsson, Jón Helgi Egilsson, Sigurður Hannesson og Lilja Mósesdóttir sem öll eru einkar vel heima í efnahagsstöðu landsins. Erindi þeirra voru tekin upp og eru tvö þeirra nú þegar komin í dreifingu á Netinu. Á næstu dögum verður hinum komið í dreifingu þar líka.

Með dreifingunni ætti að vera tryggt að þeir sem komust ekki á fundinn sl. mánudagskvöld geti kynnt sér  þær skynsamlegar lausnir sem komu fram um það hvernig hægt er að tryggja að hér verði ekki önnur fjármálakreppa og koma í veg fyrir að börnin okkar verði gerð að skuldaþrælum. Hér er fyrsta erindið frá umræddum fundi en  það er meiningin að birta hin myndböndin hér líka í sömu röð og framsögumenn fluttu erindi sín á fundinum. Fyrstur er Frosti Sigurjónsson, rekstarhagfræðingur:

Frosti flutti 9 mínútna erindi þar sem hann dró saman það helsta sem kom fram í lengra erindi frá fyrsta fundinum þar sem hann fjallaði um nýja peningastefnu. Í upphafi benti hann á að vandamálið sem við væri að glíma væri ekki séríslenskt og leiðirnar til að leysa það því vel þekktar. Í því sambandi nefndi hann möguleika eins og taka upp evru eða einhvern annan gjaldmiðil. Tillaga hans gengur hins vegar út á það að halda sig við núverandi gjaldmiðil en gera betur.

Í því sambandi bendir hann á að það sé einkum tvennt sem þarf að huga að. Í fyrsta lagi þarf að endurskoða hver hefur valdið til að búa til nýjar krónur og í öðru lagi þarf að leggja niður skuldakrónuna. Í nútímanum eru það einkabankar sem hafa einkaleyfi á peningaprentuninni hvort sem um er að ræða rafrænar krónur eða krónur í seðlum og mynt. Allar krónur eru prentaðar sem skuld sem kann ekki góðri lukku að stýra þar sem stefna einkabankanna er ekki verðstöðugleiki heldur gróði hluthafanna.

Frosti mælir með því að Seðlabankinn verði eini aðilinn sem hafi leyfi til að prenta peninga. Hann segir að þessi lausn á vandamálinu sé byggð á hugmyndum Irving Fisher sem ráðlagði Roosevelt, Bandaríkjaforseta,  að peningamagninu yrði stýrt út frá stöðugleika og þjóðarhagsmunum óháð bönkunum. Að lokum dró Frosti saman ávinningin að stöðugra verðlagi:

  1. Bankakerfið minnkar.
  2. Ríkisskuldir dragast saman.
  3. Innistæðutryggingin verður óþörf.
  4. Kostnaður bankana dregst saman.

Afleiðingin er betra bankakerfi.