Þriðjudaginn 19. júní munu aðildarfélög SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar standa fyrir SAMSTÖÐUgrilli í Hljómskálagarðinum. Félagsmönnum og velunnurum flokksins er boðið að taka þátt í viðburðinum sem hefst klukkan 17:oo og stendur til klukkan 19:00.

Tilefnið eru lok fyrstu starfslotu flokksstarfsins og er markmiðið að ljúka því með samveru í góðum félagsskap. Það eru aðildarfélögin í Reykjavík og Kraganum ásamt ungliðahreyfingunni sem standa að viðburðinum en stjórn flokksins verður líka á staðnum.

Boðið verður upp á pulsur og gos á kostnaðarverði en gestum er líka velkomið að taka með sér eitthvað matarmeira á grillið. Gestum gefst líka kostur á að eignast sumarlega boli með merki flokksins.

Ekki er heldur útilokað að einhver tónlistaratriði verði í boði en þar sem Hljómskálagarðurinn eru nokkrir fermetrar er rétt að benda á að viðburðurinn mun eiga sér stað í skjólinu við leiktækin sem eru í þeim enda sem markast af Hringbraut, Njarðargötu og Sóleyjargötu.

Sjáumst í sumarskapi:-)