Afskriftir í nafni mannúðar

Categories
Fréttir

Lilja Mósesdóttir þingmaður og formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar skrifar pistil á heimasíðu sína www.liljam.is í dag. Í pistlinum fjallar Lilja m.a. um hvernig röng efnahagsstefna í Evrópu hefur komið þjóðum eins og grísku þjóðinni í sjálfheldu og ekki að ósekju að menn eins og hagfræðingurinn Joseph Stiglitz hafa kallað stefnuna sjálfsmorðsstefnuna. Hann hefur haldið því fram að stefnan dýpki kreppuna og geri aðstæður almennings óbærilegar.  Bönkunum hefur verið bjargað og töpuð útlán þeirra gerð að skuld skattgreiðenda samhliða óbærilegum niðurskurði ríkisútgjalda sem hefur haft þær afleiðingar að gríska þjóðin getur ekki brauðfætt börn sín eða útvegað sjúkum lyf. Slík stefna holar grunnstoðir samfélagsins inn að beini og dregur m.a. úr getu atvinnulífs að fjárfesta og ráða fólk og snúa þannig vítahringnum við.

Í pistlinum skrifar Lilja:

Evran hefur gert fólki að flytja allar eigur sínar frá fátækari evrulöndum og skilja skuldirnar eftir fyrir fátækt fólk að greiða af. Ósjálfbærar skuldir hafa  ekki síður eyðileggjandi áhrif á samfélagið og líf einstaklinga en stríð.  Skuldir sem koma í veg fyrir að þjóðir geti tryggt einstaklingum mannréttindi eins og atvinnu, framfærslu og heilbrigðisþjónustu á að afskrifa í nafni mannúðar.

Þessi umræða er ákaflega mikilvæg fyrir íslenska þjóð sem situr undir snjóhengju erlendra kröfuhafa vegna skulda gömlu þrotabúanna og aflandskrónueigenda sem vilja koma sínu fjármagni úr landi sem fyrst en komast ekki út vegna gjaldeyrishaftanna. Samanlagt samanstendur snjóhengjan svokallaða af 1200 milljörðum.

Skv. Seðlabanka Íslands voru undirliggjandi erlendar skuldir þjóðarbúsins á árinu 2011 um 212% af VLF en ekki nema um 170% af VLF í Grikklandi. Afgangur okkar á viðskiptum við útlönd dugar ekki til að greiða afborganir og vexti af þessari skuldsetningu. Viðskiptahallinn hefur minnkað mikið eftir hrun en er enn neikvæður um 2,5% af VLF, þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi fallið um 80% frá 2007. Gengi krónunnar þarf því að falla meira til að standa undir núverandi skuldsetningu við útlönd. M.ö.o. líklegt er að stjórnvöld og valdastéttin muni skerða lífskjör landsmanna til að standa undir núverandi skuldsetningu þjóðarbúsins.  Hætta er á að erlendar skuldir þjóðarbúsins muni vaxa umtalsvert á næstunni ef áform um að breyta aflandskrónum og eignum kröfuhafa gömlu bankanna (snjóhengjan), þ.e. 1.200 milljörðum í annað hvort í ríkisskuldabréf í erlendum myntum eða lán hjá Evrópska Seðlabankanum.  Slík skuldsetning breytir einkaskuld í skuld skattgreiðenda sem er óásættanlegt. Ósjálfbærar skuldir hneppa komandi kynslóðir í óbærilega skuldafjötra. Afskrifa verður stóran hluta snjóhengjunnar ef Ísland á að vera búsetuvalkostur fyrir börnin okkar.

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.