Á sama tíma og Lilja Mósesdóttir þingmaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar flutti ræðu við eldhúsdagsumræður í sölum Alþingis stóðu aðildarfélög flokksins í Reykjavík og Kraganum ásamt ungliðahreyfingunni fyrir velheppnuðum gjörningi á Austurvelli. Gjörningurinn snerist um það að mynda táknræna samstöðu til þess að undirstrika mikilvægi þess að samstaða sé lykillinn að úrlausn þeirra mörgukrefjandi verkefna sem þing heimur og þjóðin öll standa frammi fyrir.

Mynd af þátttakendum í gjörningi á vegum Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar
Gjörningurinn fór þannig fram að fyrst voru myndaðir margir litlir hringir þar sem þrjár manneskjur stóðu saman í hring með því að halda við axlir næstu manneskju og líkja þannig eftir merki flokksins. Þessir litlu hringir voru einnig táknrænir fyrir þá samstöðu sem þarf að ríkja um mikilvæg málefni eins og fiskveiðistjórnunarkerfið, skuldamál heimila og fyrirtækja, nýja stjórnarskrá, auðlindamál, velferðarkerfið, menntamál og fleiri grundvallarmál.

Þátttakendur virtust skemmta sér vel og í hverjum hópi fóru fram heilmiklar og frjóar umræður. Þegar þessu var lokið myndaði hópurinn einn stóran hring utan um styttuna af Jóni Sigurðssyni sem átti að vera táknrænn fyrir þá samstöðu sem þarf að ríkja um hagsmuni heildarinnar. Samstaða um hvert og eitt málefni leiðir af sér samstöðu um heildarhagsmuni. Að lokum sneri hópurinn sér um styttuna til þess að tákna þá hreyfingu sem þarf að komast á málin til þess að árangur náist. Þannig virkaði hópurinn til dæmis eins og tákn fyrir hjól atvinnulífsins sem verður að snúa í gang eigi að takast að skapa velferð og þar er hver og einn einstaklingur mikilvægur hlekkur.

Hvert og eitt okkar getur verið breytingin sem við viljum sjá. Markmið þessa gjörnings var ekki að fylla Austurvöll heldur að fá nægilega marga þátttakendur til þess að tákna þann boðskap sem markmiðið var að koma á framfæri, njóta augnabliksins og hafa gaman af. Við þökkum þeim sem tóku þátt fyrir framlagið og fyrir að gera þetta að veruleika með okkur.

Með því að klikka á einhverja af myndunum hér fyrir neðan kemur upp glærusýning. Þegar músarbendilinn er settur yfir hana koma flettimöguleikarnir í ljós.