Það er óhætt að segja að þeir sem mættu á fundinn, sem haldinn var í húsnæði SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, í gærkvöldi hafi farið fróðari heim en þar fjallaði dr. Sigurður Hannesson um gjaldeyrishöftin í máli og myndum. Gestir fundarins kviknuðu allir til áhuga á  ýmsum hagfræðilegum hugtökum og fjármálastærðum sem Sigurður vék að í fyrirlestri sínum.

Sigurður gerði kostnaðinn af höftunum að sérstöku umræðuefni þar sem hann talaði m.a. um „hægfara hrörnun“. Höftin gerðu það svo að verkum að svokallaðir aflandskrónueigendur vildu út og vandinn sem hefur orðið að hefð að kalla „snjóhengju“ ykist jafnt og þétt. Í framhaldinu benti hann á að núverandi stefna Seðlabankans í gjaldeyrismálum væri afar ólíkleg til að skila þeim árangri að unnt yrði að afnema höftin á næsta ári. Hann tók það fram að það væri ekki bara stefna Seðlabankans í peningamálum sem viðhéldi vandanum heldur ætti stefnuleysi stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum stóran þátt líka.

Það var stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík sem stóð að fundinum en þetta var þriðji fundurinn í fundarröð sem stjórn aðildarfélagsins í Reykjavík hefur staðið fyrir á hálfsmánaðarfresti um peningastefnuna. Fjórði og síðasti fundurinn verður haldinn 11. júní n.k. en þar mun Lilja Mósesdóttir, þingmaður og formaður SAMSTÖÐU, fjalla um skiptigengileiðina.

Fyrirlesarinn, Sigurður Hannesson, ásamt Guðbirni Jónssyni, Lilju Mósesdóttur og Sigurði Árnasyni

Með því að klikka á einhverja af myndunum hér fyrir neðan kemur upp glærusýning. Þegar músarbendilinn er settur yfir hana koma flettimöguleikarnir í ljós.