Birgir Örn Guðjónsson skrifar:

Ég er þreyttur á að vera reiður. En samt var eigninni minni stolið ásamt öllu mínu sparifé og án alvöru lausna horfi ég fram á gjaldþrot fjölskyldunnar, þrátt fyrir að ég sé í fastri vinnu og hafi borgað alla mína reikninga. Þetta er ekki sanngjörn staða og reiði er fullkomlega eðlileg og réttmæt. Þess vegna er svo freistandi að halda í hana. En hversu lengi? Mér finnst reiðin og biturleikinn í samfélaginu fara vaxandi.

Reiðin getur stundum virkað sem drifkraftur. Hún þjappar þeim saman sem bera sömu tilfinningar og vekur samkennd. Búsáhaldabyltingin var t.d sprottin upp úr slíkri samkennd. Okkur var nóg boðið og við stóðum upp og börðum í borðið.

En hvert fór allt fólkið sem var á Austurvelli? Mörgum finnst þögnin í dag þrúgandi. Er búið að svæfa fólk, er úthaldið þrotið eða eru allir svona sáttir við sinn hlut?

Reiðin virkar svipað og orkudrykkur. Hún vekur okkur og kemur okkur úr sporunum. En þessi orka varir stutt og allt í einu erum við andlaus og tóm og við setjum traust okkar á hina íslensku þjóðtrú um að „þetta reddist“.

Reiðin er ekki góður grunnur til uppbyggingar. Hún þurrkar okkur upp og hefndarþorstinn verður sífellt sterkari. Þeim þorsta verður aðeins svalað með hugarfarsbreytingu. Í þeirri hugarfarsbreytingu felst m.a. fyrirgefning.

En að fyrirgefa snýst samt ekki um að samþykkja það sem gert hefur verið á manns hlut. Að fyrirgefa er ekki það sama og að gefast upp. Að fyrirgefa snýst um að slíta böndin sem halda okkur föstum svo við getum haldið áfram að stefna að því marki sem okkur var ætlað. Læra af liðnum atburðum en hætta að láta þá stjórna okkur.

Ef við viljum alvöru uppbyggingu í íslensku samfélagi þarf nýja hugsun. Hugsun sem byggir upp en rífur ekki niður. Hugsun sem sameinar en sundrar ekki. Hugsun sem byggir á gjafmildi en ekki græðgi. Hugsun sem berst fyrir fólk en ekki fyrir pólitískar stefnur. Hugsun sem ber virðingu fyrir öllum, líka þeim sem hafa aðrar skoðanir en við sjálf og eiga minni eða meiri pening. Hugsun sem byggir á samstöðu.

Það þarf byltingu í íslensku samfélagi. En byltingin þarf ekki að vera blóðug. Henni þurfa ekki að fylgja tárvot augu á reykmettuðum Austurvelli. Henni þarf ekki að fylgja grjótkast í lögreglumenn sem eru að berjast við sama kerfi og allir aðrir.

Ég get ekki sætt mig við að „þetta reddist“. Ekki þegar ég veit að það er í mínu valdi að byggja þá framtíð sem ég treysti fyrir börnunum mínum. Höldum áfram að berjast fyrir réttlæti. Höldum áfram að berjast fyrir framtíð okkar og næstu kynslóða á okkar frábæra landi. En í þessari baráttu skulum við koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Það er þess virði.

Að lokum. Ein og sér er þessi grein bara innantóm orð en samstaða um innihald hennar getur breytt miklu. Boltinn er hjá þér.

Áður birt á visir.is

Höfundur er formaður aðildarfélags SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar í Kraganum

Í framhaldi þess sem segir hér á undan er rétt að vekja athygli á því að aðildarfélögin í samvinnu við Kristbjörgu Þórisdóttur, meðstjórnanda SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, ásamt ungliðahreyfingunni Skerpu hafa boðað til samstöðu á Austurvelli n.k. þriðjudagskvöld. Tilefnið er að þá fara fram eldhúsdagsumræður á Alþingi sem er síðasti dagskrárliður þingsins áður en það fer í sumarfrí.  „Allir eru hvattir til að rísa upp og taka þátt í þessum gjörningi og sýna að samstaða er lykillinn að samfélagi sem gerir ráð fyrir öllum.“ (Sjá nánar)