Aðildarfélag SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar var stofnað 12. mars sl. Á stofnfundi félagsins, sem fram fór í Iðnó, var kosið í fimm manna stjórn. Hér á eftir fer kynning á þeim sem hlutu kosningu auk kynningar á varamanni stjórnar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari í íslensku, er formaður stjórnar SAMSTÖÐU-Reykjavík. Frá haustinu 2008 hefur hún unnið sleitulaust að ýmsum viðspyrnuverkefnum. Fyrst á Akureyri og síðar í Reykjavík. Hún var einn aðalskipuleggjandi Tunnumótmælanna haustið 2010 og tók virkan þátt í Samstöðu þjóðar gegn Icesvave fyrri hluta árs 2011. Frá haustinu 2011 lagði hún hönd á plóg við uppbyggingu Grasrótarmiðstöðvarinnar. Rakel starfaði áður með Hreyfingunni.

Sigurbjörg K. Schiöth er með B.Ed-gráðu frá KHÍ en stundar nú nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Sigurbjörg er gjaldkeri aðildarfélagsins. Hún hefur fjölþætta starfs- og félagsmálareynslu að baki. Vann lengst af hjá Sveitarfélaginu Árborg þar sem hún átti líka sæti í Starfsmannafélagi Árborgar. Var m.a. formaður Starfsmannafélagsins í tvö ár og fulltrúi þess í stjórn BSRB. Sigurbjörg var auk þessa formaður Neytendafélags Suðurlands í tíu ár. Hún starfaði áður með Sjálfstæðiflokknum.

Hildur Mósesdóttir, aðalbókari hjá Iceland Express, er ritari stjórnar SAMSTÖÐU-Reykjavík. Hildur hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum innan VR. Var stjórnarmaður þar undanfarin tvö ár en er núna annar varamaður. Hún hefur líka starfað mikið fyrir Íþróttafélagið Fylki og er núna formaður blakdeildar Fylkis. Hildur hefur ekki tekið þátt í starfsemi stjórnmálaflokks áður.

Guðrún Indriðadóttir er mennaður leikskólakennari en vinnur við bókhald. Hún er annar meðstjórnandi stjórnar SAMSTÖÐU-Reykjavík. Guðrún, sem vill láta kalla sig Rúnu, var trúnaðarmaður hjá Eflingu og síðar VR auk þess sem hún hefur setið í trúnaðarráði þessara félaga. Hún er í stjórn íbúasamtaka Grafarvogs. Rúna hefur mikinn áhuga á velferðar- og lífeyrismálum auk þess sem hún hefur sett sig vel inn í almannatryggingakerfið bæði hér og í Danmörku þar sem hún bjó í sex ár. Hún hefur ekki tekið þátt í starfi stjónmálaflokks áður.

Pálmey Gísladóttir er menntaður lyfjatæknir en vinnur sem móttökuritari hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins í Kópavogi. Pálmey er líka meðstjórnandi SAMSTÖÐU-Reykjavík. Hún hefur starfað með Líonsklúbbnum Fold sl. 18 ár þar sem hún hefur gengt ýmsum embættum og er að taka við formennsku hans. Pálmey átti sæti í sóknarnefnd Grafarholtssóknar. Hún hefur setið í stjórn VR og var varamaður í stjórn Mímis símenntunar í ár. Pálmey starfaði áður með Sjálfstæðisflokknum.