Það er mikil vinna að koma nýju framboði á framfæri við kjósendur. Það er nefnilega ekki nóg að stofna flokk, leggja fram grundvallarstefnuskrá, setja upp heimasíðu og kjósa í stjórnir. Það þarf líka að kynna þennan nýja valkost og fólkið sem stendur að baki því. Þegar fjárráðin eru lítil setur það kynningunni hins vegar verulegar skorður.

Meðlimir í stjórnum SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar hafa því skipulagt greinaskrif í þeim tilgangi að kynna málefni flokksins og fólkið sem stendur honum að baki. Þessar greinar munu að öllum líkindum birtast á síðum vefmiðla og dagblaða á næstu vikum. Reyndar hafa einhverjar þeirra birst nú þegar. Ein þeirra er aðgengileg hér á heimasíðunni.

Bloggskrif er líka hentugur vettvangur til að koma mönnum og málefnum nýs framboðs með lítil sem engin fjárráð á framfæri. Þeir eru nokkrir í stjórnum SAMSTÖÐU sem hafa komið sér upp slíkum vettvangi sem þeir nýta í þeim tilgangi til að vekja athygli á málefnum flokksins og svo þeim málaflokkum sem standa þeim næst. Hér á eftir er yfirlit yfir það um hverja er að ræða:

Lilja Mósesdóttir, þingmaður og formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, er með sinn eigin bloggvettvang þar sem hún hefur skrifað afar upplýsandi og lausnarmiðaðar greinar um efnahagsmál.

Kristbjörg Þórisdóttir, sálfræðingur og meðstjórnandi í stjórn flokksins, bloggar á eyjan.is þar sem hún skrifar uppljómandi hugvekjur um hvaðeina; allt frá utanríkismálum til málefna sem snúa að persónulegu lífi einstaklingsins.

Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari og formaður aðildarfélags SAMSTÖÐU í Reykjavík, skrifar á moggablogginu þar sem hún setur gjarnan fram kraftmiklar greinar um einstök mál en nýtir það líka sem upplýsingavettvang fyrir það sem hæst ber í grasrótinni.

Vilhjálmur Bjarnason, fasteignasali og gjaldkeri í stjórn aðildar- félags flokksins í Kraganum, skrifar líka á moggablogginu þar sem hann fjallar um lánamál heimilanna út frá sjónarhóli lántakenda.

Hallgeir Jónsson, starfsmaður í þjónustufyrirtæki í örtækni- iðnaðinum og varaformaður Ungliðahreyfingar SAMSTÖÐU, er enn einn moggabloggarinn og er ötull á þeim vettvangi þar sem hann lætur sér fátt óviðkomandi er lýtur að samfélagsmálum; bæði innanlands og utan.