Mynd af Lilju Mósesdóttur formanni Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar23. mars birti Lilja Mósesdóttir, þingmaður og formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, grein á bloggi sínu sem hún nefnir. „Þjóðnýting einkaskulda – almenningur blóðmjólkaður“. Greinina byrjar hún á þessum orðum: „Kröfuhafar gömlu bankanna og útrásarvíkinganna leita enn leiða til að koma kröfum sínum yfir á skattgreiðendur í stað þess að láta gömlu bankana og útrásarvíkingana borga. Forysta stjórnarflokkanna hefur ýtt undir þessa viðleitni kröfuhafanna með ítrekuðum nauðsamningum um „Icesave skuldbindinguna“, andstöðu við almennar skuldaleiðréttingar sem hefðu rýrt eignir kröfuhafa og stuðning við gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir að aflandskrónur og aðrar eignir kröfuhafa verði afskrifaðar.“

Það er sorglegt að þrátt fyrir að núverandi stjórnarflokkar hafi lofað kjósendum að reisa skjaldborg um heimilin þá er staðreyndin sú að nú þremur árum síðar er samfélagið enn í þeim sporum að það eru kröfuhafar gömlu bankanna og útrásarvíkingarnir sem njóta skjólsins á kostnað almennings. Því miður er ekkert sem bendir til þess að þessi forgangsröðun sé neitt á undanhaldi eins og fréttir innan úr efnahags- og viðskiptanefnd sýna. Í þessu ljósi skrifar Lilja þessa grein þar sem hún segir undir lokin:

Sú leið sem stjórnarflokkarnir hafa valið til að tryggja eignir aflandskrónueigenda og kröfuhafa er að halda kaupmætti í landinu niðri og langt undir því sem gerist hjá nágrönnum okkar. Lítill kaupmáttur almennings á Íslandi dregur úr innflutningi vöru og þjónustu, þannig að afgangur myndast á viðskiptum við útlönd. Afgangurinn er notaður til að fjármagna hægfara útstreymi froðueignanna. Miklar skuldir og vaxtagreiðslur íslenska þjóðarbúsins gera þjóðinni sífellt erfðara fyrir að fjármagna hægfara útstreymi froðueigna og því eru nú uppi raddir um að veikja þurfi gengi krónunnar enn meira til að fjármagna útstreymið. Enn á ný er m.ö.o. uppi krafa um að styrkja skjaldborgina um fjármagnseigendur á kostnað lífskjaranna í landinu. Stjórnarflokkarnir virðast ekki sjá neina aðra leið út úr vandanum. Ef hin svokallaða norræna velferðarstjórn ætlar að fara lífskjaraskerðingarleiðina, þá mun mikill fjöldi landsmanna sjá hag sýnum betur borgið með því að selja krónueigendum eignir sínar á bóluverði og flytja þangað þar sem lífskjör eru viðunandi.

Lesa greinina í heild.